Lífið

„Mennska Ken-dúkkan“ sögð verða fulltrúi San Marínó í Eurovision

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rodrigo Alves hefur gengist undir fjölmargar lýtaaðgerðir til að fullkomna útlitið.
Rodrigo Alves hefur gengist undir fjölmargar lýtaaðgerðir til að fullkomna útlitið. Getty/Maria Moratti
Rodrigo Alves, sem þekktastur er fyrir að líkjast Ken-dúkkunni frægu, hefur verið orðaður við þátttöku í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í maí næstkomandi. Alves er sagður munu taka þátt í keppninni fyrir hönd San Marínó.

Sanmarínóska ríkissjónvarpið SMRTV hefur ekki staðfest þátttöku Alves en orðrómar þess efnis hafa þó verið nokkuð þrálátir síðustu misseri, samkvæmt frétt Eurovision-vefsíðunnar ESC Bubble.

Alves sjálfur virðist þó fullviss um þátttöku sína í keppninni ef marka má færslu sem hann birti á Instagram í dag. Þar hefur Alves skeytt saman mynd af sjálfum sér og opinberu merki San Marínó í Eurovision. Í texta við myndina lýsir Alves því yfir að „draumar rætist í raun og veru“ með hjálp kærleika, staðfestu og virðingar við náungann.

Samkvæmt frétt ESC Bubble mun SMRTV tilkynna um þátttakandann sem orðið hefur fyrir valinu þann 21. janúar næstkomandi. Þá kemur í ljós hvort Alves, betur þekktur undir nafninu „Mennska Ken-dúkkan“, stígi á svið í Tel Aviv í maí.

Alves er fæddur í Brasilíu árið 1983 en öðlaðist frægð í Bretlandi fyrir sérkennilegt útlit sitt, sem hann hefur mótað eftir eigin höfði með hjálp lýtaaðgerða. Hann tók þátt í bresku raunveruleikaþáttaröðinni Celebrity Big Brother í fyrra en var rekinn úr þáttunum eftir að hann viðhafði orðalag þrungið kynþáttafordómum.

San Marínó hefur tekið þátt í Eurovision síðan árið 2008 með hléum. Þar af hefur söngkonan Valentina Monetta tekið þátt fjórum sinnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×