Enski boltinn

Liðsfélagi Gylfa orðaður við PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fylgist með þeim Idrissa Gueye og Oumar Niasse fagna marki Everton í vetur.
Gylfi Þór Sigurðsson fylgist með þeim Idrissa Gueye og Oumar Niasse fagna marki Everton í vetur. Getty/Mark Robinson
Franska blaðið L'Equipe segir frá því að liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton sé mögulega á leiðinni til franska stórliðsins Paris Saint Germain.

Samkvæmt frétt franska blaðsins þá er Idrissa Gueye búinn að vera að leita sér að húsi í París.

Everton vill fá 27 milljónir punda fyrir þennan 29 ára gamla varnartengilið. Senegalinn hefur spilað með Everton frá árinu 2016.





Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri PSG, hefur mikinn áhuga á því að fá Idrissa Gueye í janúarglugganum.

Paris Saint Germain er með örugga forystu í frönsku deildinni en mætir Manchester United í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Idrissa Gueye kom til Everton frá Aston Villa í ágúst 2016 en Everton nýtti sér þá klausu í samningi Gueye þegar Aston Villa féll úr ensku úrvalsdeildinni. Everton gat þá keypt upp samning hans fyrir 7,1 milljón punda.

Gueye lék síðast í Frakklandi tímabilið 2014-15 en hann var hjá Lille í sjö ár.

Idrissa Gueye hefur spilað fyrir aftan Gylfa á miðju Everton í vetur en hann hefur byrjað 18 af 22 leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Það er ljóst að Everton mun sakna Idrissa Gueye en sem dæmi um mikilvægi hans má nefna það staðreynd að liðið fékk á sig samtals níu mörk í síðustu tveimur deildarleikjum án Gueye.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×