Erlent

Fimmtán létust í flugslysi í Íran

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Flugvélin hafnaði á íbúðarhúsnæði
Flugvélin hafnaði á íbúðarhúsnæði EPA/HASSAN SHIRAVANI
Fimmtán fórust er flutningavél brotlenti á flugvellinum í Karaj-borg í Íran í morgun. Flugvélin virðist hafa farið út af flugbrautinni áður en hún fór í gegnum vegg sem aðskilur flugvöllinn og aðliggjandi íbúðarhverfi. BBC greinir frá.

Sextán voru um borð í vélinni og fórust allir nema einn sem fluttur var á spítala slasaður. Af myndum af vettvangi má sjá að svo virðist sem að flugvélin, Boeing 707, hafi runnið af flugbrautinni í átt að íbúðarhúsnæði en veður var slæmt er slysið átti sér stað.

Fjölmiðlar í Íran segja að flugvélin hafi verið á leið með kjöt frá Bishkek, höfuðborg Kirgistan. Óvíst er hver átti flugvélina en talsmaður íranskra flugmálayfirvalda segir að hún hafi verið í eigu Kirgistan. Forráðamenn flugvallarins í Biskhek segja hins vegar að hún hafi verið í eigu íranska flugfélagsins Payam Air.

Frá vettvangi.EPA/HASSAN SHIRAVANI



Fleiri fréttir

Sjá meira


×