Handbolti

Björgvin Páll: Æðislegt að fá boltann í hausinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgvin Páll í leiknum í dag.
Björgvin Páll í leiknum í dag. Vísir/EPA
Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik í marki Íslands gegn Barein í dag. Hann komst í gang eftir rólega byrjun og varði þrettán skot - þar af fjögur vítaskot.

„Þetta var voða fínt og mjög skemmtilegt. Miðað við hvernig úrslitin voru þá kom á óvart hversu skemmtilegur leikur þetta var,“ sagði Björgvin Páll sem var valinn maður leiksins. Hann ræddi við Tómas Þór Þórðarson eftir leikinn.

„Mér fannst þetta æðislegt. Það var æðislegt að fá boltann í hausinn í upphafi leiks til að kveikja aðeins í þessu. Búa til smá læti,“ sagði hann enn fremur en á sjöttu mínútu fékk Mohamed Habib beint rautt spjald fyrir að kasta í höfuð Björgvins Páls í vítakasti.

Björgvin Páll var í miklu fjöri í leiknum og steig meira að segja létt dansspor eftir markvörslu úr hraðaupphlaupi Bareina í síðari hálfleik. Hann segir að það hafi verið sérstök tilfinning að spila gegn Bareinum - að þetta hafi verið að eins og að spila gegn sextán útgáfum af sjálfum sér.

„Það var alvöru geðveiki og ég var bara sautjándi maðurinn í þessu. Þetta er blóðheit þjóð - alvöru gæjar og töffarar. Þeir láta ekkert vaða yfir sig. Þetta eru alvöru keppnismenn, svipað eins og við Íslendingar.“

„Þetta var aðeins rólegra í seinni hálfleik en við gáfum samt allt í þetta enda að berjast fyrir okkar þjóð og fólkið heima.“

Björgvin Páll var ánægður með frammistöðuna hjá íslenska liðinu í dag. „Þetta er lið sem stóð í Spánverjum lengi vel. Við mættum í þennan leik eftir stutta hvíld og lítinn undirbúning. Frammistaðan sýnir að menn eru tilbúinir að leggja sig fram í þetta.“

Klippa: Björgvin: Gott að fá boltann í hausinn



Tengdar fréttir

Teitur: Ég vildi sýna mig

Teitur Örn Einarsson minnti á sig í leiknum gegn Barein með rosalegum neglum sem markverðir Barein gátu ekki annað en dáðst af.

Guðmundur: Tveir erfiðir leikir framundan

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, var ánægður með leik sinna manna í sigrinum gegn Barein. Hann var sér í lagi ánægður með ákefðina sem hélt út allan leikinn.

Aron: Komu nánast slefandi út af

Aron Kristjánsson segir að hans menn í Barein hafi orðið virkilega þreyttir í átján marka tapi gegn Íslandi á HM í handbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×