Skoðun

Um staðreyndir

Dóra Björt Guðjónsdóttir skrifar
Staðreynd: Það var meirihlutinn sem lagði fram tillögu í borgarráði um að öllum steinum skyldi velt við í braggamálinu. Engin yfirhylming hefur átt sér stað – heldur er það einmitt vilji meirihlutans að upplýsa þetta mál að fullu. Það er búið að viðurkenna mistök og nú á að ráðast í róttækar breytingar. Hversu oft höfum við séð þessi viðbrögð við erfiðum málum í íslenskum stjórnmálum?

Staðreynd: Borgarráð þar sem allir flokkar hafa aðkomu ber hina formlegu ábyrgð á innleiðingu ábendinga braggaskýrslunnar, hópurinn sem borgarstjóri situr í er óformlegur og á bara að móta tillögur sem borgarráð tekur afstöðu til. Borgarstjóri er ekki að fara að rannsaka sjálfan sig, rannsóknin hefur farið fram af óháðum aðila og nú er kominn tími til að taka næsta skref.

Þegar komast þarf til botns í flóknum og alvarlegum málum er mikilvægt að halda sig við staðreyndir. Annað er markleysa, getur verið villandi og afvegaleitt umræðuna.

Því miður hefur ýmsum rangfærslum verið haldið fram í umræðu um braggamálið. Vigdís Hauksdóttir hefur haldið því fram að skýrslan sýni fram á hegningarlagabrot og að ástæða sé því til að vísa henni til héraðssaksóknara – sem er rangt. Margoft hefur það komið fram í umræðunni að tölvupóstum Hrólfs, fyrrverandi skrifstofustjóra SEA, hafi verið eytt – sem er rangt. Rangfærslurnar eru ýmiss konar.

Í Bakþönkum Sirrýjar Hallgrímsdóttur hér í Fréttablaðinu um helgina var ég skrifuð fyrir orðum um borgarstjóra sem ég lét aldrei falla. Þegar Sirrý áttaði sig á mistökum sínum baðst hún strax afsökunar og er hún kona að meiri fyrir það. Ýmsir mættu taka Sirrý sér til fyrirmyndar að þessu leyti. Það er öllum hollt að játa mistök sín og læra af þeim.

Í allri vinnu okkar Pírata leggjum við höfuðáherslu á upplýsingagjöf og aðgengi að réttum upplýsingum. Borgarstjórnarflokkur Pírata hefur því boðað grasrót sína á fund nú á fimmtudag til að fara yfir þær upplýsingar sem nú liggja fyrir og rýna skýrslu Innri endurskoðunar saman. Þannig náum við árangri.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×