Enski boltinn

Guardiola segir sínum mönnum að hætta að horfa á leikjadagskrána hjá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. Getty/Shaun Botterill
Pep Guardiola stýrði Manchester City til sautjánda sigursins á tímabilinu í gær og liðið minnkaði því forskot Liverpool á toppnum í fjögur stig. Spænski stjórinn var að sjálfsögðu spurður út í Liverpool liðið á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Við getum ekkert gert neitt þegar kemur að leikjum Liverpool. Það eru bara þeirra leikir,“ sagði Pep Guardiola. Hann vill að hans menn einbeiti því bara að sínum leikjum.

„Eina leiðin hjá okkur til að setja pressu á Liverpool er að sjá til þess að við fylgjum þeim og séum tilbúnir að nýta okkur það ef þeir misstíga sig,“ sagði Guardiola.

„Ég segi mínum mönnum að hætta að horfa á leikjadagskrána hjá Liverpool. Það er best fyrir þá að gleyma þeim. Vanalega fara menn að tapa leikjum ef menn festast í því,“ sagði Guardiola en BBC segir frá.





„Það er ekki auðvelt að halda stöðugleika því við náðum ótrúlegum tölum á síðasta tímabili. Liverpool hefur staðið sig betur hingað til en það eina sem við getum gert er að klára okkar leiki. Við höfum talað um það margoft við okkar leikmenn að einbeita sér að því sem við getum stjórnað og það eru okkar leikir,“ sagði Guardiola.

Liverpool og Manchester City virðast vera að slíta sig frá Tottenham og Chelsea og þetta verður væntanlega einvígi milli þeirra um Englandsmeistaratitilinn.

„Það er orðið nokkuð ljóst ef við vinnum ekki þá verða þeir meistarar. Við verðum því að setja pressu á þá með því að vinna okkar leiki,“ sagði Guardiola.

Næstu leikir liðanna eru um næstu helgi. Liverpool tekur á móti Crystal Palace á heimavelli á laugardaginn en Manchester City heimsækir Huddersfield Town á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×