Handbolti

Hafa varið næstum því jafnmörg víti og öll hin liðin til samans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson er öflugur í vítaköstunum á HM 2019.
Björgvin Páll Gústavsson er öflugur í vítaköstunum á HM 2019. Vísir/Getty
Íslensku markverðirnir á HM í handbolta eru nú það markvarðarpar á mótinu sem hefur varið flest vítaskot í fyrstu þremur umferðum riðlakeppninnar.

Björgvin Páll Gústavsson og Ágúst Elí Björgvinsson vörðu saman fimm víti á móti Barein, Björgvin Páll varði fjögur en Ágúst Elí varði eitt.

Björgvin Páll var að verja víti í öðrum leiknum á mótinu því hann tók líka eitt frá Króötum í fyrsta leik íslenska liðsins á föstudaginn var.

Næsta lið á Íslandi eru lærisveinar Patreks Jóhannessonar með fjögur víti varin eða tveimur færri en íslensku markverðirnir.

Það er líka mjög athyglisvert að bera vítamarkvörslu íslensku markvarðanna við þá hjá hinum fimm liðunum í B-riðlinum.

Á meðan íslensku markverðirnir hafa varið sex víti þá hafa allir makverðir hinna fimm liðanna „aðeins“ varið átta víti samanlagt.

Vítamarkvarslan hjá íslensku strákunum er 40 prósent en „bara“ fimmtán prósent samanlagt hjá öðrum liðum í riðlinum. Hér fyrir neðan má sjá samanburð á vítamarkvörslu í riðli Íslands á HM.

Varin vítaskot í fyrstu þremur umferðunum í B-riðli á HM 2019:

Ísland 6 af 15 (40%)

Björgvin Páll Gústafsson 5 af 13 (38%)

Ágúst Elí Björgvinsson 1 af 2 (50%)

Hin liðin í B-riðli 8 af 52 (15%)

Japan 3 af 14 (21%)

Spánn 2 af 13 (15%)

Barein 2 af 14 (14%)

Króatía 1 af 6 (17%)

Makedónía 0 af 5 (0%)

Flest varin víti hjá liðunum á HM 2019 til þessa:

1. Ísland 6 af 15 (40%)

2. Austurríki 4 af 11 (36%)

3. Síle 3 af 9 (33%)

3. Japan 3 af 14 (21%)

3. Serbía 3 af 16 (19%)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×