Enski boltinn

Emery vill Özil burt til þess að losa um fjármagn

Anton Ingi Leifsson skrifar
"Hérna er leiðin út, vinur.“
"Hérna er leiðin út, vinur.“ vísir/getty
Unai Emery, stjóri Arsenal, vill Mesut Özil burt frá félaginu til þess að geta fengið fjármuni til að kaupa aðra leikmenn til félagsins en Daily Mail greinir frá þessu.

Özil hefur ekki verið í náðinni hjá Emery sem hefur gengið erfiðlega með Arsenal-liðið á útivelli undanfarnar vikur. Liðið tapaði gegn West Ham um helgina og hefur því einungis fengið tvö stig í síðustu fimm útileikjum.

Þjóðverjinn var ekki í hópnum um helgina á meðan unglingurinn Eddie Nketiah var í hópnum. Í viðtali eftir leikinn var Emrey spurður út í valið en þá svaraði hann á þeim nótum að þeir leikmenn sem ættu skilið að vera valdir, væru valdir í hópinn.

Það eru ekki margir sem eru tilbúnir til þess að borga Özil 350 þúsund á viku sem hann er með hjá Arsenal og erfitt er að lána hann til annarra liða vegan þess. Emery vill hins vegar fá hann burt svo hann geti skoðað aðra leikmenn.

Arsenal hafði náð samkomulagi við Barcelona um að fá Denis Suarez en Börsungar eru ekki reiðubúnir að lána Suarez nema Arsenal sé tilbúið að kaupa hann í sumar. Því er Lundúnar-liðið ekki opið fyrir.

Það lítur út fyrir að allt sé ekki með felldu í búningsherbergi Arsenal því eftir tapið gegn West Ham sagði varnarmaðurinn Sokratis Papastathopoulos að liðið vanti gæði á síðasta þriðjungnum.

Fjölmiðlar tóku því þannig að hann var einfaldlega að segja að liðið vantaði Özil en varnarmaðurinn talaði um hversu góð færi liðið hefði komið sér í hefði síðasta sendingin verið betri en hún var. Það er einmitt sérgrein Özil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×