Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - KA/Þór 21-21 | Frábær endurkoma KA/Þórs í Garðabæ

Benedikt Grétarsson skrifar
vísir/daníel
Stjarnan missti niður fimm marka forystu gegn KA/Þór, þegar liðin mættusti í 12. umferð Olísdeildar kvenna í handbolta. Niðurstaðan varð jafntefli, 21-21 eftir sveiflukenndan leik.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði sex mörk fyrir Stjörnuna og Hildur Einarsdóttir var með 11 bolta varða. Martha Hermannsdóttir var markahæst norðankvenna með sjö mörk en þeirra besti leikmaður var markvörðurinn Olgica Andrijasevic sem varði 18 skot, þar af 11 skot í fyrri hálfleik.

Fyrri hálfleikur fer aldrei í neinar sögubækur en bæði lið gerðu sig sek um aragrúa mistaka í sókninni og tapaðir boltar voru alltof margir.

Markverðir liðanna voru ljósu punktarnir í fyrri hálfleik en það voru Stjörnukonur sem leiddu með fimm mörkum 13-8 eftir 30 mínútna leik. Stjarnan átti í raun að vera með betra forskot en heimakonur létu Andrijasevic verja rosalega mikið frá sér í dauðafærum

Seinni hálfleikur byrjaði gríðarlega vel fyrir KA/Þór sem skoraði fjögur fyrstu mörkin og breyttu stöðunni í 13-12.

Aftur náði Stjarnan að rykkja frá og komast í 17-14 en þá komu aftur fjögur mörk í röð hjá KA og skyndilega voru gestirnir komnir yfir í fyrsta sinn í leiknum. Rakel Dögg Bragadóttir skoraði þá sitt fyrsta mark og spennan orðin gríðarleg. Sólveig Lára Kristjánsdóttir jafnaði metin í 21-21 þegar hálf mínúta var eftir og Stjörnukonur héldu í lokasóknina.

Hún endaði með fínu færi sem Laufey Ásta Guðmundsdóttir fékk en hin magnaða Olgica Andrijasevic varði vel og máttlaus tilraun Rakelar fór svo í vörnina og aftur fyrir markið. Niðurstaðan jafntefli og líklega eru norðankonur sáttari við þá niðurstöðu.

vísir/daníel
Af hverju varð jafntefli?

Þetta var leikur tveggja hálfleika, eins skringilega og það hljómar. Stjarnan var miklu betra liðið í fyrri hálfleik en í senni hálfleik voru gestirnir langtum ákveðnari og eiga stigið skilið. 

Hverjar stóðu upp úr?

Hildur Einarsdóttir var mjög góð í markinu í fyrri hálfleik en markverðir Stjörnunnar voru úti á túni í seinni hálfleik. Stefanía Theodórsdóttir átti ágætan leik og Rakel Dögg og Hanna voru traustar varnarlega.

Olgica Andrijasevic var besti leikmaður gestanna og tryggði öðrum fremur KA/Þór gott stig á útivelli. Martha lék vel að venju og Hulda Bryndís steig upp á ögurstundu.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikurinn var hreint út sagt ömurlegur hjá KA/Þór,sérstaklega í fyrri hálfleik. Byrjendamistök sem eiga einfaldlega ekki að sjást hjá liði í efstu deild litu dagsins ljós og þetta var alls ekki líkt því liði sem við höfum séð í vetur hjá KA/Þór. Stórt hrós til þeirra að girða sig duglega í senni hálfleik.

Hvað gerist næst?

Stjarnan á erfiðan leik fyrir höndum að Hlíðarenda gegn toppliði Vals. KA/Þór fær HK í heimsókn norður.

vísir/daníel
Sebastian: Ég hef ekki alltaf rangt fyrir mér

„Ég er bara mjög ósáttur. Við vissum að það kæmi áhlaup hjá þeim eftir hálfleikinn og það var bara ekki í lagi að við skyldum bakka undan því. Mér fannst við vera miklu betri aðilinn í þessum leik,“ sagði frekar óhress þjálfari Stjörnunnar, Sebastian Alexandersson eftir 21-21 jafntefli liðsins gegn KA/Þór.

Markvarsla gestanna var frábær og það var ekki að hjálpa Stjörnunni í þessum leik.

„Hún (Olgica Andrijasevic, markvörður KA/Þór) ver einhver 40 skot eða eitthvað í markinu hjá þeim en mér er alveg sama um það. Þær fengu að spila ævintýralega langar sóknir, endalaus fríköst og ekkert í gangi.“

Hér fór aðeins að þykkna í þjálfaranum sem sendi dómurum leiksins smá pillur.

„Dómararnir missa af einhverjum 10 skrefa-dómum í seinni hálfeik og ég hef ekki alltaf rangt fyrir mér. Þeir verða bara að horfa á þennan leik. Það getur vel verið að eitthvað af þessu sé þvættingur í mér en það er ekki gæta að ég hafi alltaf haft rangt fyrir mér.“ Sebastian viðurkennir þó að jafnteflið skrifist á sambland klaufaskaps Stjörnunnar og baráttu KA/Þórs.

„Það breytir því ekki að þetta er ótrúlega seigt lið og það má aldrei hætta á móti þeim. Þær bara náðu í þetta stig, sem er klárlega tapað stig fyrir okkur. Taflan segir reyndar að þær séu betra lið en við en við vorum í dauðafæri að taka bæði stigin,“ sagði Sebastian Alexandersson.

vísir/daníel
Jónatan: Fyrri hálfleikur hrein hörmung

Jónatan Magnússon, þjálfari KA/Þórs sá sitt lið koma til baka úr erfiðri stöðu gegn Stjörnunni og taka eitt stig heim til Akureyrar.

„Ég er mjög ánægður með stigið þar sem það var á brattann að sækja. Við áttum ekki góðan dag en ég tek þessu stigi fegins hendi og

hrósa stelpunum fyrir mikinn karakter.“

Það var á köflum erfoitt að horfa á leikinn í fyrri hálfleik, þegar leikmenn köstuðu boltanum afar klaufalega frá sér trek í tekk og Jónatan viðurkennir að frammistaðan hafi ekki verið á pari.

„Fyrri hálfleikurinn var bara það versta sem við höfum boðið upp á í vetur. Þetta var svona keðjuverkun þar sem við vörum afleitar sóknarlega og það smitaðist í varnarleikinn og seinni bylgjuna okkar.“

„Við erum með 12 tapaða bolta í fyrri hálfleik og það segir sig sjálft að það er bara algjör hörmung. Það hefði verið auðvelt að gefast upp en við stöndum vörnina vel svona heilt yfir og svo var Olga bara frábær í markinu,“ bætti Jónatan við.

Línuspilið þeirra var að gera okkur erfitt fyrir í fyrri hálfleik en við náðum að laga það í þeim seinni. Við þurftum einfaldlega að berjast, við vorum ekki á deginum okkar sóknarlega og það er bara gott að næla í stig þegar þú ert ekki að spila þinn besta leik,“ sagði umtalsvert sáttari þjálfari kvöldsins að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira