Fótbolti

Vilja létta álögunum og skipta því út fölsuðum gullpeningum frá 1960

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Son Heung-min með gullverðlaunin sem hann vann á Asíuleikunum og slapp um leið við herþjónustu. Nú vilja Suður-Kóreumenn fleiri gull.
Son Heung-min með gullverðlaunin sem hann vann á Asíuleikunum og slapp um leið við herþjónustu. Nú vilja Suður-Kóreumenn fleiri gull. Vísir/Getty
Son Heung-min og félagar í knatspyrnulandsliði Suður-Kóreu ætla sér stóra hluti í Asíukeppninni sem fer fram í þessum mánuði og suður-kóreska þjóðin bindur líka miklar væntingar til liðsins síns.

Hvernig tengist það því að knattspyrnusamband Suður-Kóreu er að reyna að skipta út öllum gullverðlaunum sem landsliðsmenn Suður-Kóreu fengu eftir sigurinn í Asíukeppninni árið 1960?

Jú, ástæðan er góða gamla hjátrúin. Umræddir leikmenn í landsliði Suður-Kóreu eru síðustu Asíumeistarar þjóðarinnar í knattspyrnu karla. Síðan eru liðin 59 ár og margir trúa því í Suður-Kóreu að fölsuðum gullpeningum sé um að kenna.

Fjölmiðlaumfjöllun hefur líka snúist mikið um þetta undanfarin ár. Besti árangur Suður-Kóreu í Asíukeppninni síðan 1960 er annað sætið sem landslið Suður-Kóreu hefur fjórum sinnum þurft að sætta sig við síðan.





Þar á meðal er síðasta Asíukeppni árið 2015 en Suður-Kóreumenn töpuðu þá fyrir Ástralíu í framlengdum úrslitaleik. Ástralía vann þar sinn fyrsta Asíutitil. Þrír af fyrrnefndurm fjórum úrslitaleikjum Suður-Kóreu hafa tapast í framlengingu eða vítakeppni.

Leikmennirnir í sigurliðinu frá 1960 fengu falsaða gullpeninga og hafa sumir lýst því að „gullið“ hafi bara flagnað af verðlaunapeningnum þeirra.

Knattspyrnusamband Suður-Kóreu hefur verið að skipta út gullverðlaunapeningum leikmannanna á síðustu fimm árum. Nú síðast fengu börn fjögurra leikmanna nýjan alvöru gullpening en feður þeirra eru látnir.

Nú er að sjá hvort álögunum sé loksins létt. Son Heung-min er mættur til móts við liðið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þar sem keppnin fer fram. Liðið vann nauma sigra á Filippseyjum og Kyrgystan án hans en næsti leikur eru við Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×