Viðskipti innlent

Íslendingar pökkuðu í vörn í jólaneyslunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Landsmenn stilltu jólaneyslunni í hóf að mati greiningardeildar Íslandsbanka.
Landsmenn stilltu jólaneyslunni í hóf að mati greiningardeildar Íslandsbanka. Vísir/Vilhelm
Kortavelta íslenskra heimila í nýliðnum desembermánuði nam um 86,5 milljörðum króna, sem jafngildir um 4,5 prósent aukningu frá sama mánuði árið áður.

Sé þessi upphæð raunvirt miðað við þróun neysluverðs og gengis var desember þó annar mánuðurinn í röð þar sem kortavelta dróst saman á milli ára. Er það til marks um að landsmenn hafi stillt „jólagleðinni í hóf um nýliðnar hátíðir ,“ að mati greiningardeildar Íslandsbanka. „Íslensk heimili virðast nú vera að pakka í vörn í kjölfar gengislækkunar krónu og vaxandi óvissu um efnahagshorfur,“ segir í greiningu bankans og bætt við að lokaársfjórðungur síðasta árs sé sá fyrsti frá upphafsfjórðungi ársins 2013 þar sem kortavelta einstakinga dróst saman milli ára á raunvirði.

Vöxtur einkaneyslunnar undanfarna fjórðunga hafi þó verið lífseigari en greiningardeildinni segist hafa gert ráð fyrir, „þrátt fyrir lækkandi væntingar, hóflegri kaupmáttarvöxt og hægari fólksfjölgun en raunin var misserin á undan.“

Það er þó mat greiningardeildarinnar að nú virðist vera að koma á daginn að heimilin séu að rifa seglin. „Kortavelta dróst örlítið saman að raunvirði á lokafjórðungi síðasta árs eftir samfelldan vöxt í tæp fimm ár. Er það að mati okkar nokkuð skýrt merki um að einkaneysluvöxtur muni reynast lítill á fjórðungnum,“ segir í mati greiningardeildarinnar sem nálgast má í heild sinni með því að smella hér.

 

Greiningardeild Íslansbanka





Fleiri fréttir

Sjá meira


×