Erlent

Reyna að grafa göng til drengsins í borholunni

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Tveggja ára drengur að nafni Julen var í lautarferð með fjölskyldu sinni í Totalán, fyrir utan Malaga í suðurhluta landsins, þegar hann féll ofan í tilraunaborholu sem hafði ekki verið innsigluð. 

Meira en hundrað slökkviliðsmenn og aðrir viðbragðsaðilar hafa unnið dag sem nótt við að hafa upp á drengnum. Hann æpti við fallið í holuna en ekki hefur heyrst frá honum síðan.

Viðbragðsaðilar eru ekki bjartsýnir á framhaldið en nú er leitað frumlegra leiða til að ná til hans. Holan er um hundrað metra djúp og ekki nógu breið fyrir fullorðna manneskju til að síga niður eða um 25 sentímetrar á þvermál.

Holan er um hundrað metrar á dýpt. Hún þrengist eftir 73 metra en þar fundust eigur drengsins. Reynt verður að bora tvær holur til að hafa upp á honum.Mynd/skjáskot
Á um 73 metra dýpi fundu myndavélar sælgæti og bolla sem drengurinn var með þegar hann féll í holuna en jarðvegur hefur riðlast til og er holan þrengri á því dýpi. Dælum er beitt til að fjarlægja jarðveginn og víkka holuna. Það hefur hinsvegar gengið hægt. 

Tvær björgunarleiðir eru áformaðar. Annarsvegar að bora breiðari holu samsíða borholunni og hinsvegar að bora holu skáhallt í jarðveginn til að ná til drengsins. Þessar aðferðir eru þó þrautinni þyngri að sögn talsmanns björgunaraðgerða.

„Mörg fyrirtæki hafa skaffað búnað og margar hátæknilausnir,“ segir Bernardo Molto, talsmaður lögreglunnar. „Við erum að klóra okkur í hausnum yfir því hvernig bjarga megi drengnum. Við höfum að ná að komast í gegn um hluta stíflunnar á 70 metra dýpi en við höfum ekki fundið drenginn ennþá.“

Um er að ræða mikinn fjölskylduharmleik en tveimur árum fyrr höfðu foreldrarnir misst bróður Julen, eins og hálfs árs gamlan af slysförum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×