Erlent

Segir búið að fella alla árásarmennina í Naíróbí

Atli Ísleifsson skrifar
Hryðjuverkasamtökin al-Shabaab, sem starfað í Sómalíu, segjast bera ábyrgð á árásinni.
Hryðjuverkasamtökin al-Shabaab, sem starfað í Sómalíu, segjast bera ábyrgð á árásinni. EPA
Uhuru Kenyatta, forseti Kenía, segir að allir árásarmennirnir, sem réðust á hótel í höfuðborginni Naíróbí í gær, hafi verið felldir. Forsetinn segir að fjórtán óbreyttir borgarar hafi látið lífið í árásinni, en ekki liggur fyrir um fjölda árásarmanna.

Alls þurfti að rýma sjö hundruð úr byggingarsamstæðunni, en síðast heyrðust þar skothljóð snemma í morgun.

„Við höfum sýnt óvinum okkar, og heiminum öllum, að við sem þjóð erum reiðubúin að taka á hverju því sem ógnar okkar þjóð,“ sagði Kenyatta í ræðu sinni í morgun.

Árásin hófst með tveimur sprengingum við DusitD2-hótelið – einni í forsal glæsihótelsins og annarri fyrir utan hótelið – um klukkan 15 að staðartíma í gær. Lögreglustjórinn Joseph Boinnet segir að sjálfsvígssprengjumaður hafi verið í hópi árásarmanna.

Síðustu skothljóðin í morgun heyrðust eftir að búið var að koma fjölda eftirlifenda, sem hafði verið haldið inni í byggingunni, út.

Hryðjuverkasamtökin al-Shabaab, sem starfað hafa í Sómalíu, segjast bera ábyrgð á árásinni, en samtökin hafa áður staðið fyrir fjölda árása í Kenía.

Staðfest er að einn Bandaríkjamaður hið minnsta hafi látist í árásinni og þá er talið að breskur ríkisborgari hafi sömuleiðis látið lífið.


Tengdar fréttir

Fimmtán látnir í árásinni í Kenía

Nú er ljóst að fimmtán eru látnir hið minnsta eftir að hryðjuverkasamtökin Al Shabab gerðu árás á lúxushótel í Naíróbí í Kenía í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×