Erlent

Ungbarn innbyrti gríðarlegt magn af Fentanyl

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lyfið er eitt sterkasta verkjalyfið á markaðnum.
Lyfið er eitt sterkasta verkjalyfið á markaðnum. Vísir/Getty
18 mánaða gömul stúlka lést á jóladag í Detroit í Bandaríkjunum eftir að hafa innbyrt gríðarlegt magn af verkjalyfinu Fentanyl. Allt að fimmtán sinnum meira magn af lyfinu fannst í blóði stúlkunnar en í öðrum dauðsföllum sem rekja má til neyslu of stórs skammts af Fentanyli í sýslunni þar sem hún bjó. 

Foreldrar hennar voru ákærðir á mánudaginn fyrir manndráp, vanrækslu barns og framleiðslu eiturlyfja en þau framleiddu Fentanyl á heimili þeirra í Detroit. Washington Post greinir frá.

Yfirvöld telja líkegt að stúlkan hafi drukkið vökva sem innihélt mikið magn af lyfinu. Dró það stúlkuna til dauða en saksóknari í málinu segir að aldrei hafi mælst jafn mikið Fentanyl í blóði einstaklings í sýslunni.

Barnið fannst meðvitundarlaust á heimili ömmu sinnar en talið er að hún hafi komist í tæri við vökvann á heimili sínu. Lést hún skömmu eftir að hún var færð á sjúkrahús.

Við leit á heimili stúlkunnar komst upp um umfangsmikla framleiðslu á lyfinu sem er helsti sökudólgurinn í faraldri útbreiddrar fíknar í sterk lyfseðilsskyld lyf í Bandaríkjunum.

Lyfið er eitt sterkasta verkjalyf á markaðnum en það er hundrað sinnum sterkara en morfín og fimmtíu sinnum sterkara en heróín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×