Enski boltinn

Bielsa sendi njósnara til allra andstæðinga Leeds í vetur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Marcelo Bielsa
Marcelo Bielsa vísir/getty
Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri Leeds, segist hafa látið njósna um alla andstæðinga sína á þessu tímabili.

Upp komst um njósnir Bielsa í lok síðustu viku þegar njósnari frá Leeds var gripinn glóðvolgur fyrir utan æfingasvæði Derby County. Kallað var til lögreglunnar sem fjarlægði manninn frá svæðinu.

Bielsa játaði njósnirnar fyrir leik liðanna á föstudagskvöld og á laugardag sendi Leeds frá sér yfirlýsingu þar sem Derby var beðið afsökunar.

Argentínumaðurinn boðaði óvænt til blaðamannafundar í dag og fóru sögusagnir á loft um að hann væri að segja starfi sínu lausu. Það var hins vegar ekki.

Í staðinn sagðist hann hafa njósnað um alla andstæðinga þeirra í vetur.

„Margir hafa skoðun á hegðun minni og segja hana siðlausa,“ sagði Bielsa og bætti við að hann væri ekki að fá neinar upplýsingar sem hann gæti ekki nálgast með öðrum hætti og hann væri ekki að brjóta nein lög.

Hann hefur hins vegar tekið því að forráðamenn ensku deildarkeppninnar eða enska knattspyrnusambandið gæti refsað honum og Leeds.

Leeds er á toppi B-deildarinnar með fjögurra stiga forskot á Sheffield United og Norwich City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×