Enski boltinn

Derby sló Southampton úr leik í vítaspyrnukeppni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Úrvalsdeildarliðabanarnir ættu ekki að eiga í miklum vandræðum með Accrington Stanley í næstu umferð
Úrvalsdeildarliðabanarnir ættu ekki að eiga í miklum vandræðum með Accrington Stanley í næstu umferð vísir/getty
Frank Lampard og lærisveinar hans í Derby County halda áfram að slá út úrvalsdeildarlið í bikarkeppnum, liðið hafði betur gegn Southampton í vítaspyrnukeppni í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar í kvöld.

Derby, sem sló Manchester United út úr deildarbikarnum, gerði 2-2 jafntefli við Southampton í fyrri leiknum og því varð að endurtaka leikinn.

Leikurinn í kvöld fór fram í Southampton og endaði hann einnig 2-2 eftir venjulegan leiktíma.

Öll mörk leiksins komu á 14 mínútna kafla í síðari hálfleik.

Stuart Armstrong kom Southampton yfir á 68. mínútu og Nathan Redmond kom stöðunni í 2-0 tveimur mínútum síðar. Þá héldu margir að leikurinn væri búinn en leikmenn Derby gáfust ekki upp.

Harry Wilson skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu á 76. mínútu. Á 82. mínútu jafnaði Martyn Waghorn svo leikinn eftir fyrirgjöf frá Wilson.

Sigurmarkið kom ekki og því var farið í framlengingu. Þar kom ekkert mark heldur og grípa þurfti til vítaspyrnukeppni.

Waghorn skoraði úr fyrstu spyrnunni fyrir Derby og James Ward-Prowse skoraði úr fyrstu spyrnu Southampton. Eftir að David Nugent skoraði skaut Nathan Redmond hins vegar hátt yfir og framhjá úr sinni spyrnu .

Mason Mount hamraði í stöngina og inn. Næstu þrjár spyrnur fóru inn og því gat fyrirliðinn Richard Keogh tryggt Derby 5-3 sigur í vítaspyrnukeppninni ef hann skoraði úr síðustu spyrnunni. Hann gerði það af öryggi og Derby County vann leikinn.

Derby mætir Accrington Stanley í fjórðu umferðinni en Southampton er úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×