Körfubolti

Harden eftir 58 stiga leikinn sinn í nótt: „Þetta er mjög pirrandi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden.
James Harden. Getty/Thearon W. Henderson
James Harden átti enn einn stórleikinn með Houston Rockets en liðið tapaði samt sem áður á heimavelli í NBA-deildinni í nótt. Kyrie Irving var magnaður í sigri Boston Celtics, Golden State Warriors vann sinn sjötta leik í röð og Luka Doncic gerði það sem enginn nýliði hefur afrekað síðan Steph Curry árið 2010.





James Harden skoraði 58 stig en það dugði samt ekki Houston Rockets sem tapaði 142-145 á heimavelli á móti Brooklyn Nets í framlengdum leik. Harden skoraði einu stigi meira en í síðasta leik og þetta eru tveir stigahæstu leikir hans á leiktíðinni.

Þrátt fyrir magnaða frammistöðu Harden þá var hann ekki maður leiksins í Houston ío nótt. Spencer Dinwiddie fór nefnilega illa með Houston liðið því hann skoraði 25 af 33 stigum sínum í fjórða leikhluta og framlengingu.





Dinwiddie kom leiknum í framlengingu með þremur þristum á síðustu 30 sekúndunum og skoraði síðan sigurkörfuna í lok hennar.

„Þetta er pirrandi, mjög pirrandi,“ sagði James Harden eftir leikinn en Houston liðið missti niður átta stiga forskot á síðustu mínútunni í fjórða leikhluta og komst síðan sjö stigum yfir í framlengingunni.









Stephen Curry skoraði 41 stig og setti niður níu þriggja stiga skot þegar Golden State Warriors vann New Orleans Pelicans 147-140. Þetta var sjötti sigur meistara Golden State í röð.

Curry setti enn eitt þriggja stiga metið í nótt því þetta var þriðji leikur hans í röð með átta eða fleiri þrista. Það hefur aldrei gerst áður í sögu NBA.

Anthony Davis var með 30 stig, 18 fráköst, 7 stoðsendingar og 3 varin skot fyrir Pelíkanana en það dugði ekki til ekki frekar en 29 stig frá Nikola Mirotic.

Kevin Durant skoraði 30 stig og tók 15 fráköst, Klay Thompson var með 19 stig og Draymond Green bauð upp á 17 stig og 14 stoðsendingar.





Kyrie Irving fór fyrir sínum mönnum í Boston Celtics í 117-108 sigri á Toronto Raptors í toppslag í Austurdeildinni. Irving endaði með 27 stig og 18 stoðsendingar en hann var magnaður í lokaleikhlutanum þar sem hann skoraði 10 stig og gaf 6 stoðsendingar.

Irving missti af síðasta leik og Boston tapaði þá þriðja leiknum í röð. Kyrie var staðráðin að enda taphrinuna og það voru hans framlög sem kláruðu leikinn. Boston endaði leikinn á 17-4 spretti þar sem Irving var allt í öllu.

Kawhi Leonard skoraði 33 stig fyrir Toronto og Serge Ibaka var með 22 stig og 10 fráköst.





Davis Bertans skoraði úrslitakörfuna í 105-101 sigri San Antonio Spurs á Dallas Mavericks þar sem Dallas liðið komst mest 19 stigum yfir í fyrri hálfleik. Marco Belinelli var stigahæstur hjá Spurs með 17 stig en slóvenski nýliðinn Luka Doncic bauð upp á 25 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar í liði Dallas.

Doncic var þar með fyrsti nýliðinni í rúm átta ár sem nær að skora 25 stig eða meira í fimm leikjum í röð. Síðastur til að ná því á undan honum var Stephen Curry árið 2010.

Giannis Antetokounmpo var með 27 stig og 11 fráköst þegar Milwaukee Bucks vann Memphis Grizzlies með einu stigi, 111-110. Þetta var þriðji sigur Giannis og félaga í röð og ennfremur fjórtándi sigurinn í síðustu sautján leikjum.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Golden State Warriors - New Orleans Pelicans  147-140    

Los Angeles Clippers - Utah Jazz 109-129

Portland Trail Blazers - Cleveland Cavaliers    129-112    

Dallas Mavericks - San Antonio Spurs    101-105    

Boston Celtics - Toronto Raptors    117-108    

Houston Rockets - Brooklyn Nets    142-145 (131-131)    

Memphis Grizzlies - Milwaukee Bucks    101-111    

Detroit Pistons - Orlando Magic    120-115 (109-109)

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×