Enski boltinn

Skiptir Gylfa Sig út fyrir Aron Einar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oumar Niasse fagnar marki með Gylfa Þór Sigurðssyni. Hér eftir spilar Niasse með Aroni Einari í Cardiff.
Oumar Niasse fagnar marki með Gylfa Þór Sigurðssyni. Hér eftir spilar Niasse með Aroni Einari í Cardiff. Getty/Mark Robinson
Oumar Niasse skipti um lið í ensku úrvalsdeildinni í gær en er engu að síður áfram hluti af Íslendingaliði.

Everton samþykkti að lána Oumar Niasse til Cardiff City til loka tímabilsins. Hann fer því úr því að vera liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar í að vera liðsfélagi landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar.

Oumar Niasse hefur aðeins fengið samtals 58 mínútur í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og vildi ólmur komast til liðs þar sem hann fær að spila.





Senegalski framherjinn er fyrsti liðstyrkur Cardiff City í janúarglugganum. Liðið er ekki hætt að styrkja sóknina því Cardiff hefur einnig mikinn áhuga á argentínska framherjanum Emiliano Sala sem spilar með Nantes.

Samkvæmt fréttum enskra miðla þá vildi Everton helst selja þennan 28 ára gamla leikmann en Cardiff tókst að sannfæra þá á Goodison Park um að lána hann frekar.

Oumar Niasse kom til Everton frá Lokomotiv Moskvu árið 2016 og borgaði enska félagið 13,5 milljónir punda fyrir hann. Hann hefur hinsvegar ekki hækkað í verði hjá félaginu og er talið að Everton menn myndu sætta sig við 7 milljónir punda fyrir hann í dag.

Oumar Niasse átti sitt besta tímabil með Everton í fyrra þegar hann skoraði 8 mörk í 22 deildarleikjum en félagið hefur áður lánað hann til Hull City þar sem hann skoraði 4 mörk í 17 leikjum tímabilið 2016-17.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×