Erlent

Gríðarstór gælukrókódíll varð konu að bana

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Krókódíllinn heitir Merry og er 700 kíló að þyngd. Mynd tengist fréttinni ekki beint.
Krókódíllinn heitir Merry og er 700 kíló að þyngd. Mynd tengist fréttinni ekki beint. Getty/EyesWideOpen
Stór krókódíll, sem haldinn var ólöglega sem gæludýr á indónesísku eyjunni Sulawesi, varð konu að bana fyrr í mánuðinum. BBC greinir frá.

Samkvæmt frétt BBC var konan, hin 44 ára gamla Deasy Tuwo, að gefa krókódílnum að éta þegar hún féll í laug hans. Krókódíllinn, sem heitir Merry og vegur 700 kíló, réðst á konuna, beit af henni handlegginn og reif hana á hol.

Tuwo var yfirmaður rannsóknarstofu við perluframleiðslu á Sulawesi, þar sem krókódílnum var haldið án tilskilins leyfis. Samstarfsmenn Tuwo fundu lík hennar í laug krókódílsins 11. janúar síðastliðinn en hún er talin hafa fallið í laugina daginn áður.

Krókódíllinn var fluttur á náttúruverndarsvæði í nágrenninu og verður þar á meðan yfirvöld hafa uppi á eiganda hans, japönskum ríkisborgara. Þá er haft eftir yfirvöldum að ítrekað hafi verið reynt að fjarlægja krókódílinn af lóð perluframleiðslunnar en opinberum starfsmönnum hafi í öll skiptin verið meinaður aðgangur að svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×