Erlent

Ætlaði að ráðast á Hvíta húsið með eldflaug

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skotmarkið.
Skotmarkið. EPA/ Jim Lo Scalzo
Rúmlega tvítugur karlmaður hefur verið handtekinn í Georgíu-ríki Bandaríkjanna, grunaður um að hafa ráðgert árás á Hvíta húsið í Washington, vopnaður eldflaug og heimatilbúnum sprengjum.

CNN greinir frá og segir að maðurinn, hinn 21 árs gamli Hasher Jallal Taheb, hafi ætlað sér að sprengja gat á Hvíta húsið með eldflauginni og komast þannig inn í húsið. Vopnaður riffli hafi hann ætlað sér að hefja skotárás inn í húsinu áður en hann myndi sprengja sjálfan sig í loft upp.

Saksóknarar segja að Taheb hafi reiknað með að tveir aðrir myndu taka þátt í árásinni, samstarfsmennirnir reyndust hins vegar vera fulltrúi FBI annars vegar og uppljóstrari á vegum FBI hins vegar.

FBI fékk ábendingar um grunsamlega hegðun og var þá sett upp aðgerð til þess að reyna að veiða upp úr honum hvað hann hefði í hyggju. Sendi FBI fulltrúa sinn til að hitta Taheb í dulargervi. Aðeins viku eftir fyrsta fund þeirra hafði hann greint fulltrúanum frá áætlun sinni um að ráðast á Hvíta húsið.

Taheb var handtekinn í gær eftir að hafa reynt að verða sér úti um vopn til árásarinnar, í skiptum fyrir bíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×