Erlent

Amnesty vill fylgjast með réttarhöldum Katalóna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Katalónar fylgjast náið með gangi mála.
Katalónar fylgjast náið með gangi mála. Nordicphotos/AFP
Mannréttindabaráttusamtökin Amnesty International hafa sent hæstarétti Spánar bréf þar sem samtökin biðja formlega um leyfi fyrir því að fá að fylgjast með komandi réttarhöldum yfir tólf stjórnmálamönnum og aðgerðasinnum. Níu af þessum tólf hafa verið í gæsluvarðhaldi frá haustinu 2017. Málið tengist sjálfstæðisatkvæðagreiðslu og -yfirlýsingu í október það ár. Amnesty hefur ítrekað kallað eftir því að nímenningarnir verði leystir úr haldi.

Hin ákærðu eiga yfir höfði sér saman­lagt 177 ára fangelsi fyrir meðal annars uppreisn, misnotkun skattfjár og uppreisnaráróður. Flest hafa þau nú birt yfirlýsingu um málsvörn sína. Ákærðu halda því til að mynda fram að ákæran sé pólitísks eðlis og að hæstiréttur Spánar sé þátttakandi í pólitískum leik gegn Katalónunum. Þá eru friðsamleg mótmæli Katalóna og ofbeldi spænsku lögreglunnar á kjördag borin saman og því haldið fram að katalónska héraðsþingið hafi farið að lögum og ekki misnotað almannafé, þvert á það sem saksóknarar halda fram.

Áhuginn á réttarhöldunum er mikill og verður þeim sjónvarpað og streymt á netinu. Í ljósi áhyggja sinna af meintri hlutdrægni hæstaréttar hafa sex katalónsk, spænsk og alþjóðleg mannréttindabaráttu­samtök stofnað saman heildarsamtök um eftirlit fyrir réttarhöldin er nefnast International Trial Watch. Þá krefjast verjendur hinna ákærðu þess að alþjóðleg samtök fái að hafa eftirlit með réttarhöldunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×