Fótbolti

„Ég vel liðið mitt eftir typpastærð“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Imke Wubbenhorst  á liðsmynd með kvennaliði BV Cloppenburg.
Imke Wubbenhorst á liðsmynd með kvennaliði BV Cloppenburg. Mynd/Heimasíða BV Cloppenburg
Imke Wubbenhorst er ein af frumkvöðlunum í Þýskalandi þegar kemur að konum sem taka að sér að þjálfa karlalið í fótboltanum. Hún er líka með munninn fyrir neðan nefið.

Blaðaviðtal við Imke hefur vakið mikla athygli í Þýskalandi sem og annars staðar en hún varð í desember fyrsta konan til að þjálfa karlalið í fimmtu deildinni í Þýskalandi.

Imke Wubbenhorst tók þá við liði BV Cloppenburg og á dögunum hitti hún blaðamann Welt og sagði frá einni af spurningunum sem hún hefur fengið frá þeim tíma.





Imke sagði blaðamanni Welt frá því að einn kollegi hans hefði spurt hana um það hvort hún varaði leikmenn sína við þegar hún kæmi inn í búningsklefann þannig að þeir hefðu nú tækifæri til að klæða sig í buxurnar.

„Auðvitað ekki, ég er fagmaður,“ svaraði hún í kaldhæðni og bætti svo strax við:

„Ég vel liðið mitt eftir typpastærð,“ sagði Imke Wubbenhorst. Hún er hins vegar ekki fyrsti kvenþjálfarinn eða konan sem fær karlrembuspurningu en þær eru ekki margar sem tækla þær af jafnmiklum fítónskrafti og hún.





Pia Sundhage, fyrrum þjálfari sænska kvennalandsliðsins, átti samt líka skemmtilegt svar við einni slíkri þegar hún var spurð að því hvort hún gæti þjálfað sænska karlalandsliðið.

„Angela Merkel stjórnar nú heilu landi," svaraði Pia Sundhage og benti þar á kanslara Þýslalands til síðustu þrettán ára.

Forráðamenn Cloppenburg höfðu trú á Imke Wubbenhorst sem er enn bara þrítug og ætti að fá tækifæri til að komast enn lengra upp metorðastigann. Wubbenhorst var á sínum tíma í þýska unglingalandsliðinu.

Imke Wubbenhorst hafði þjálfað kvennalið félagsins en félagið taldi betra að hún tæki að sér að bjarga karlaliðinu frá falli.

Liðið er reyndar enn þá í botnsæti deildarinnar en spurningarnar til hennar snúast vonandi hér eftir um leikmennina en ekki buxurnar þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×