Enski boltinn

Gefa 600 miða á bikarleik Arsenal og Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Arsenal og Manchester United á leiðinni á völlinn.
Stuðningsmenn Arsenal og Manchester United á leiðinni á völlinn. Getty/Michael Regan
Mikil spenna er í loftinu fyrir leik Arsenal og Manchester United í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu og deilur komu upp í sambandi við fjölda miða sem stuðningsmenn Manchester United áttu að fá.

Leikurinn er í 32 liða úrslitum keppninnar og fer fram þann 25. janúar næstkomandi. Arsenal og Manchester United hafa verið mikil bikarlið á síðustu árum og þarna liggur kannski mesti möguleiki þeirra á að vinna stóran titil í ár.

Enska knattspyrnusambandið setur þær kröfur að fimmtán prósent miða fari til útiliðsins. Manchester United fékk hins vegar aðeins fimm þúsund miða en Emirates leikvangurinn tekur sextíu þúsund manns í sæti.

Manchester United kvartaði við enska sambandið enda ætti félagið að fá níu þúsund miða samkvæmt fimmtán prósent reglunni. Rök Arsenal voru að þeir fengju ekki fleiri miða vegna öryggismála á vellinum.

Í leikjum gegn Tottenham, Liverpool, Lincoln og Coventry þá fengu stuðningsmenn útiliðanna aftur á móti fleiri miða en stuðningsmenn United.





Enska sambandið gaf það út að það hefði ekki samþykkt þessar breytingar hjá Arsenal og að félögin yrðu nú að koma sér saman um sölu á þessum fjórum þúsundum miða sem vantaði upp á.

Manchester United lagði til að fimmtán prósent af þeim færu til góðgerðamála og Arsenal samþykkti það. Arsenal ætlar að gefa þessa 600 miða sem um ræðir.

Venjulegur miði á leikinn kostar 36,5 pund fyrir fólk í Arsenal-klúbbnum (5700 krónur) en 56,5 pund fyrir fólk utan klúbbsins (8900 krónur). Arsenal mun því tapa að lágmarki um 20 þúsund pundum, 3,1 milljón íslenskra króna, með því að gefa þessa sex hundruð miða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×