Handbolti

Danir missa einn besta línu- og varnarmann heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
René Toft Hansen fór sárþjáður af velli í gær.
René Toft Hansen fór sárþjáður af velli í gær. Getty/Jan Christensen
Danska handboltalandsliðið tryggði sér í gær inn í milliriðil með fullu húsi stiga eftir sigur á Norðmönnum en danska liðið varð líka fyrir áfalli í leiknum.

Hinn öflugi René Toft Hansen meiddist nefnilega í leiknum á móti Norðmönnum og nú er komið í ljós að þessi frábæri leikmaður verður ekki meira með á HM í ár.

René Toft náði aðeins að spila í tæpar tíu mínútur í leiknum og skoraði úr eina skotinu sínu.





René Toft Hansen er einn besti línu- og varnarmaður heims en hann meiddist á nára í leiknum. Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska landsliðsins, staðfesti í dag að meiðslin séu það alvarleg að hann verði ekki meira með á heimsmeistaramótinu.

„Rene hefur verið mjög góður í leikjum okkar á HM til þessa. Hann hefur ásamt Henrik Møllgaard verið hornsteinninn í varnarleiknum okkar og það er mjög pirrandi að missa hann,“ sagði Nikolaj Jacobsen.

Jacobsen hefur ekki enn ákveðið hvort að hann kalli á Henrik Toft Hansen inn í hópinn en yngri bróðir René Toft er að koma til baka eftir meiðsli. Henrik Toft spilar með Paris Saint-Germain og er tveimur árum yngri en René Toft.





René Toft Hansen spilaði með Kiel í sex ár en er núna leikmaður Telekom Veszprém í Ungverjalandi.

René Toft Hansen var með Dönum þegar þeir urðu Ólympíumeistarar í Ríó 2016 og þegar þeir urðu síðast Evrópumeistarar árið 2012. Hann var í úrvalsliðinu á EM 2012. René Toft hefur einnig unnið tvö HM-silfur (2011 og 2013) sem og eitt EM-silfur (2014).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×