Salah með tvö í ótrúlegum leik

Dagur Lárusson skrifar
Mo Salah hefur verið sjóðheitur.
Mo Salah hefur verið sjóðheitur. vísir/getty
Mohamed Salah var enn og aftur hetja Liverpool en hann skoraði tvö mörk í 4-3 sigri á Crystal Palace á Anfield.

 

Eins og við var að búast þá byrjuðu liðsmenn Liverpool að miklum krafti og sóttu stíft fyrstu mínúturnar. Vörn Palace var þó þétt og gaf lítið af færum á sér.

 

Fyrsta mark leiksins skoruðu þó gestirnir en þar var að verki Andros Townsend eftir frábæran undirbúning Zaha. Staðan 0-1 í hálfleik.

 

Liðsmenn Liverpool voru þó ekkert að tvínóna við hlutina í seinni hálfleiknum og jöfnuðu þeir leikinn strax á 46. mínútu. Þá tók Virgil Van Djik skot af löngu færi sem fór í varnarmann Palace og þaðan fyrir fætur Salah rétt fyrir framan markið sem þakkaði pent fyrir sig og skoraði framhjá Speroni í markinu.

 

Liðsmenn Liverpool voru að sjálfsögðu ekki hættir og héldu áfram að sækja og náðu forystunni skömmu seinna. Þá fékk Firmino boltann í teig Palace og átti hann laglegt skot sem endaði í markinu, 2-1 fyrir Liverpool.

 

Þessi leikur var þó hvergi nærri búinn því liðsmenn Palace neituðu að gefast upp. Á 65. mínútu átti Palace fína sókn sem endaði með hornspyrnu sem Townsend tók og rataði boltinn beint á höfuðið á James Tomkins sem jafnaði metin fyrir gestina.

 

Liðsmenn Liverpool voru þó ekki á þeim buxunum að að missa stig í þessum leik og náðu því aftur forystunni tíu mínútum seinna og var það að sjálfsögðu Mohamed Salah sem skoraði markið.

 

Sadio Mané vildi síðan taka þátt í markaskoruninni en hann skoraði í uppbótartíma og kom Liverpool í 4-2. Það var þó ekki síðasta mark leiksins því Max Meyer kom af bekknum og náði að klóra í bakkann fyrir Palace. Lokatölur því 4-3 og Liverpool með sjö stiga forskot á toppnum, a.m.k. þar til City spilar á morgun.

 



 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira