Handbolti

Segir pressuna á Þjóðverjum fyrir baráttuna í Köln í kvöld

Tómas Þór Þórðarson í Köln skrifar
Stefán Rafn Sigurmannsson og Bjarki Már Elísson á æfingu Íslands í gær.
Stefán Rafn Sigurmannsson og Bjarki Már Elísson á æfingu Íslands í gær. vísir/tom
Stefán Rafn Sigurmannsson átti frábæran leik á móti Makedóníu þegar að Ísland tryggði sér farseðilinn í milliriðla HM 2019 í handbolta en hann og Bjarki Már Elísson hafa skipt vinstra horninu bróðurlega með sér.

Brekkan er svo sannarlega brött fyrir kvöldið því okkar menn mæta gestgjöfum Þjóðverja í fyrsta leik í milliriðli klukkan 19.30 fyrir framan 20.000 æsta áhorfendur þýska liðsins. Okkar menn eru samt hvergi bangnir.

„Tilfinningin er bara góð. Við erum allir bara nokkuð ferskir og klárir í þennan leik.  Okkur líður vel. Pressan er öll á þeim með fulla höll á bak við sig þannig að við höfum engu að tapa og förum í hann á fullum krafti,“ segir Stefán Rafn.

Ísland stóð í Króatíu og Evrópumeisturum Spánar í riðlakeppninni áður en það fór af stað og vann þrjá leik í röð á leið sinni til Kölnar. Markmiðið í kvöld er skýrt.

„Við förum inn í alla leiki til að vinna. Við erum búnir að sýna að við getum unnið alla. Við spiluðum vel á móti Króatíu sem er eitt besta liðið á þessu móti. Það eru skýr markmið fyrir hvern einasta leik að við viljum vinna hvern einasta leik,“ segir Stefán Rafn.

Þýska liðið er undir mikilli pressu að sögn Stefáns Rafns sem hefur aðeins fylgst með umræðunni um leikinn í þýskum miðlum en hann spilaði í nokkur ár með Rhein-Neckar Löwen.

„Ég er búinn að sjá nokkuð viðtöl við þá og þeir vita að við erum góðir en líka að við erum með ungt lið. Þessir ungu gaurar hjá okkur eru bara búnir að sýna að þeir eru skynsamir og flottir,“ segir Stefán Rafn sem tekur undir það að sóknarleikur Íslands verður að vera betri í kvöld en hann hefur verið.

„Við vorum á myndbandsfundi áðan þar sem að við fórum yfir það sem við getum gert betur. Varnarleikurinn er búinn að vera flottur en við þurfum að skoða hvað við getum gert betur í sóknarleiknum,“ segir Stefán Rafn Sigurmannsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×