Handbolti

Þarf að virkja „danska Ómar“ og spila svona í dag | Myndband

Tómas Þór Þórðarson í Köln skrifar
Ómar Ingi Magnússon þarf að spila vel á móti Þýskalandi í dag.
Ómar Ingi Magnússon þarf að spila vel á móti Þýskalandi í dag. vísir/getty
Ómar Ingi Magnússon, hægri skytta íslenska landsliðsins í handbolta, hefur ekki verið að finna sig á HM 2019 og sat til dæmis á bekknum allan seinni hálfleikinn á móti Makedóníu í síðasta leik.

Þessi útsjónarsami Selfyssingur, sem spilar með stórliði Álaborgar í dönsku úrvalsdeildinni, er aðeins búinn að skora ellefu mörk á mótinu (2,2 að meðaltali í leik) og gefa sjö stoðsendingar (1,4 að meðaltali í leik).

Markafjöldinn kemur minna á óvart en lág tala stoðsendinga því Ómar er ótrúlega klókur og klár spilari sem gerir mikið af því að finna samherja sína. Yfirsýn Ómars á velli er hans helsta vopn.

Ómar Ingi hefur spilað frábærlega með Álaborg í dönsku úrvalsdeildinni í vetur og er stoðsendingahæstur í þeirri sterku deild eftir 18 umferðir með 80 stoðsendingar eða 4,4 að meðaltali í leik.

Hann er tíu stoðsendingum á undan næstum mönnum sem eru Chris Holm Jörgensen hjá SönderjyskE og Martin Nyberg, leikmaður TMS Ringsted. Báðir hafa gefið 70 stoðsendingar.

Facebook-síða dönsku úrvalsdeildarinnar valdi hárréttan tíma til að minna Ómar Inga á eigið ágæti en það birti myndband honum til heiðurs í dag með nokkrum vel völdum stoðsendingum og nú er bara að vona að það keyri skyttuna í gang fyrir leikinn á móti Þýskalandi í kvöld.


Tengdar fréttir

Vítabaninn Björgvin vaknaður

Enginn markvörður hefur varið fleiri víti en Björgvin Páll Gústavsson eftir riðlakeppnina á HM í handbolta. Vafasöm vítaköst Barein virtust kveikja á Björgvini sem hefur ekki litið um öxl eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×