Handbolti

Gísli: Gegn svona sterku liði verður allt að ganga upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gísli Þorgeir í barátunni við Hendrik Pekeler í dag.
Gísli Þorgeir í barátunni við Hendrik Pekeler í dag. Vísir/EPA
Gísli Þorgeir Kristjánsson var í lykilhlutverki í sókn Íslands sem tapaði fyrir Þýskalandi á HM í Köln í dag, 24-19. Ísland hékk lengi vel í leiknum en náði ekki að brúa bil Þjóðverjanna í lokin.

„Þetta var erfitt, gegn svona frábæru liði er dýrt að klikka á svona mörgum dauðafærum. Andreas Wolff er í hópi bestu markvarða heimi og hann varði mörg skot í kvöld,“ sagði Gísli Þorgeir í samtali við Tómas Þór Þórðarson eftir leikinn í kvöld.

„Ég fékk til dæmis þrjú dauðafæri og maður getur týnt til fullt af hlutum sem safnast einfaldlega saman. Við vorum að spila okkur í færi en nokkrir litlir hlutir gengu ekki upp hjá okkur í dag. Það þarf allt að ganga upp gegn jafn sterku liði og Þýskalandi.“

Aron Pálmarsson spilaði fyrstu 20 mínútur leiksins, þegar Ísland til að mynda var í forystu, en þurfti svo að fara meiddur af velli. Hann kom ekkert meira við sögu.

„Það er erfitt að gera þetta án hans og það var sárt að missa hann. En við náðum samt að koma okkur aftur inn í leikinn, minnka muninn í tvö mörk en þá förum við að klikka á dauðafærunum.“

„Mér finnst að við eigum að geta staðið í þeim en þetta stóra og blessaða „ef“ - ef við hefðum nýtt okkar dauðafæri þá hefði þetta verið allt annar leikur. Þetta fór út af dauðafærunum okkar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×