Enski boltinn

Sjáðu atvikið sem fékk Jürgen Klopp næstum því til að gráta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mo Salah réttir Bobby Firmino boltann.
Mo Salah réttir Bobby Firmino boltann. Skjámynd/Youtube/Inside Anfield
Liverpoool endaði árið 2018 með 5-1 stórsigri á Arsenal á Anfield og nú er hægt að sjá hvernig leikurinn gekk fyrir sig á bak við tjöldin.

Inside Anfield hefur nú birt skemmtilegt myndband inn á Youtube vefnum sem sýnir svipmyndir frá þessum leikdegi á heimavelli Liverpool liðsins sem jók forskot sitt á toppnum með þessum stórsigri.

Eins og venjan er farið yfir leikinn frá öðrum sjónarhornum en í hinni hefðbundnu sjónvarpsútsendingu og þá fá áhorfendur mikið að fylgjast með leikmönnum í leikmannagöngunum sem er alltaf mjög fróðlegt.

Brasilíumaðurinn Roberto Firmino skoraði þrennu í leiknum, tvö þau fyrstu með 90 sekúndna millibili eftir að Arsenal komst í 1-0 í upphafi leiks en það þriðja skoraði hann úr vítaspyrnu í seinni hálfleik.

Egyptinn Mohamed Salah er vítaskytta Liverpool þegar James Milner er ekki að spila og hann hefði að öllu eðlilegu átt að taka þetta víti.

Roberto Firmino hafði aldrei skorað þrennu fyrir Liverpool en Mo Salah ákvað að rétta honum boltann og leyfa Brassanum að gulltryggja þrennuna.

„Mo Salah leyfði Bobby [Firmino] að taka vítið og ég fór næstum því að gráta því við vitum öll hvað Mo langar mikið að skora mörk. Þetta var mjög falleg stund. Jólin voru búin en ekki hjá strákunum,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir leikinn.

Það má einmitt sjá það í myndbandinu þegar Mo Salah réttir Roberto Firmino boltann og leyfir honum að taka vítið. Myndbandið hjá Inside Anfield má sjá hér fyrir neðan.

Mo Salah nær í boltann þegar Liverpool fær vítið og labbar í átt að vítapunktinum. Hann afhendir Firmino síðan boltann með bros á vör og stuðningsmenn Liverpool fagna líka vel. Brasilíumaðurinn geislar af gleði þegar hann tekur við boltanum og var aldrei að fara að klikka á vítinu.

Allt þetta má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan en atvikið með vítið hefst eftir tíu mínútur í því. Við mælum samt með því að horfa á allt myndbandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×