Innlent

Hvassviðri eða stormur á landinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það verður rok og rigning víða um land í dag.
Það verður rok og rigning víða um land í dag. vísir/vilhelm
Það verður hvassviðri eða stormur á vestanverðu landinu í dag. Á vef Veðurstofunnar segir að það verði sunnan- og suðvestan 13 til 23 metrar á sekúndu um vestan til en hægari vindur austan til.

Það mun síðan bæta í vindinn norðvestan lands eftir hádegi. Segir í hugleiðingum veðurfræðings að veðrið verði einna verst á Vestfjörðum og austur í Eyjafjörð. Þar geta hviður hæglega farið yfir 35 metra á sekúndu við fjöll.

Þá er það ekki bara vindur sem fylgir þessi nýárslægð því það mun einnig rigna duglega með henni og verður jafnvel talsverð úrkoma á köflum sunnan og suðaustan til fyrri hluta dags.

Veðurhorfur á landinu:

Á föstudag:

Sunnan og suðvestan 8-15 m/s og rigning eða súld, en úrkomulítið á N- og A-landi. Hiti 4 til 9 stig.

Á laugardag:

Sunnan 10-15 m/s og víða rigning, en vestlægari síðdegis með snjókomu eða éljum og kólnar. Hiti nálægt frostmarki um kvöldið.

Á sunnudag:

Allhvöss eða hvöss suðvestanátt og él, en þurrt á austanverðu landinu. Hiti 0 til 4 stig.

Á mánudag:

Suðlæg átt og rigning á köflum en snýst í norðlægari átt á N-verðu landinu með slyddu eða snjókomu. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×