Erlent

Demókratar taka við völdum í fulltrúadeildinni

Stefán Rafn Sigurbjörnsson og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Nancy Pelosi tók í dag við fundarhamri fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og verður þannig ein af valdamestu konum Bandaríkjanna. Hún tekur við embætti þingforseta í annað sinn en áður gegndi hún því 2007 til 2011. Demókratar hafa formlega tekið við meirihlutanum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

Demókratar vonast til að geta samþykkt fjármögnun alríkisstofnana en hluti þeirra hefur verið lokaður í þrettán daga þar sem ekki hefur verið meirihluti í öldungardeild þingsins fyrir fjármögnun á landamæramúr Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Hann segir demókrata hundsa þjóðaröryggi Bandaríkjanna með því að fjármagna ekki múrinn.

Pelosi segir að innan tíðar muni demókratar leggja fram frumvarp sem sé ætlað að binda tímabundinn endi á lokanirnar sem um ræðir en ólíklegt þykir að slíkt frumvarp muni komast í gegnum öldungardeildina, þar sem repúblikanar eru með meirihluta. Leiðtogi þeirra þar hefir heitið því að ekkert frumvarp um fjármögnun stofnanna muni fara í gegnum öldungardeildina nema það njótið stuðnings forsetans.

Þá taka demókratar við formennsku í þingnefndum fulltrúadeildarinnar en í krafti þingnefnda geta þeir hafið ýmisskonar rannsóknir á forsetanum, embættisverkum hans, viðskiptum, fjármálum og samskiptum framboðs hans við Rússlands. Það eru þó skiptar skoðanir hvort að hefja eigi vantraustsferli á hendur forsetanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×