Viðskipti innlent

Íslenskur seðill seldist á 1,2 milljónir króna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Seðillinn er sagður gefinn út árið 1798.
Seðillinn er sagður gefinn út árið 1798. Mynd/Lyn Knight Auctions
Danskur ríkisdalur gefinn út á Íslandi seint á átjándu öld seldist fyrir 1,2 milljónir íslenskra króna í nóvember, samkvæmt myntsöfnunarvefnum Numismatic News.



Á vefnum segir að seðillinn sé íslenskur ríkisdalur frá árinu 1798, prentaður aftan á danskan kúrantdal. Seðillinn hafi konunglegi Kúrantbankinn gefið út á Íslandi þegar landið var enn undir danskri stjórn. Með fylgir mynd af seðlinum en á honum sést greinilega rituð íslenska, þar sem virði hans á útgáfutímanum er útlistað: „[…] geingur fyrir 1. Ríkisdal eður Nyutiu og Sex Skilldinga í Danskri Courant Mynt í Danmörku […]“.

Á vef Numismatic News kemur einnig fram að ríkisdalurinn hafi verið seldur hæstbjóðanda fyrir 10.800 Bandaríkjadali, eða rúmar 1,2 milljónir króna. Var það hæsta verð sem fékkst fyrir mynt á uppboði Lyn Knight í Kansas í nóvember síðastliðnum en hollensk-gíneskur seðill var seldur fyrir sömu upphæð.

Ríkisdalur var gjaldmiðill í Danmörku þar til samnorrænt myntbandalag tók gildi árið 1875 og norrænu ríkin tóku upp krónu. Árið 2014 seldist íslenskur 50 krónu-seðill frá árinu 1904, útgefinn af Íslandsbanka, á tæplega 16.500 Bandaríkjadali, eða rúmlega 2,2, milljónir króna, á uppboði í Chicago. Samsvarandi seðill var seldur fyrir um 1,3 milljónir króna í Danmörku árið 2016.


Tengdar fréttir

Íslenskir seðlar boðnir upp á milljónir

Mjög fágætur íslenskur hundrað krónu seðill frá árinu 1919, sem metinn er á 3-4 milljónir króna verður boðinn upp á uppboði hjá þýsku uppboðsfyrirtæki í næstu viku, ásamt rúmlega tuttugu öðrum sjaldgæfum íslenskum seðlum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×