Innlent

Búa sig undir deilur á vorþingi 

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Reikna má með átökum á Alþingi.
Reikna má með átökum á Alþingi. Vísir/Vilhelm
Búast má við deilum um stuðning við fjölmiðla, þungunarrof, fiskeldi, kjaramál, þriðja orkupakkann, veggjöld og málefni dómstóla á vorþingi sem hefst um miðjan mánuð.

Fréttablaðið ræddi við formenn fastanefnda um störfin og búast þeir við deilum á vorþingi.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar.Vísir/Vilhelm

Velferðarnefnd

Helstu mál

Heilbrigðisstefna heilbrigðisráðherra 

Frumvarp um þungunarrof

Frumvarp um starfsgetumat 

Húsnæðismál með hliðsjón af kjaraviðræðum

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður nefndarinnar:

Það varð mikil umræða um þungunarrofið þegar það var lagt fram og gæti orðið umdeilt þvert á flokka og jafnvel inni í flokkum, aðallega út af þessum vikufjölda.

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar.Fréttablaðið/Anton Brink

Fjárlaganefnd

Helstu mál

Endurskoðun á ríkisfjármálaáætlun

Ríkisreikningur

Eftirlit með framkvæmd fjárlaga

Málefni Íslandspósts

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknar og formaður nefndarinnar:

Lög um opinber fjármál hafa meiri samfellu í störfum fjárlaganefndar allt árið um kring og eftirlitshlutverk nefndarinnar er orðið mun skýrara. Svo eru það málefni Íslandspósts sem við erum enn með í skoðun en fyrirferðarmest á ég von á að verði þingsályktunartillaga um ríkisfjármálaáætlun.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður utanríkismálanefndar Alþingis.Vísir/vilhelm

Utanríkismálanefnd

Helstu mál

Stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu 

Þriðji orkupakkinn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar, um þinglega meðferð þriðja orkupakkans:

Það er lagt upp með að þetta komi til þingsins á vorþingi. Breyting á orkulögum fer til atvinnuveganefndar en aflétting stjórnskipulega fyrirvarans til okkar í utanríkismálanefnd.

Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins.fréttablaðið/ernir

Allsherjar- og menntamálanefnd

Helstu mál

Frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla 

Breyting á lögum um útlendinga – vegna umsókna til Alþingis um ríkisborgararétt

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar, um væntanlegt frumvarp menntamálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla.

Ég geri ráð fyrir því að þetta verði töluvert átakamál, bæði á milli flokka og innan flokka. Þótt flestir séu sammála um að það verði að huga að þessum málum ef menn ætla ekki að sitja bara uppi með einn ríkisfjölmiðil í landinu, eins og þróunin hefur verið, þá er ég jafn viss um að tekist verði á um aðferðirnar við að ná því markmiði.

Óli Björn Kárason er þingmaður Sjálfstæðisflokks.vísir/vilhelm

Efnahags- og viðskiptanefnd

Helstu mál

Frumvarp um þjóðarsjóð

Frumvarp um launafyrirkomulag þeirra sem heyrðu áður undir kjararáð

Niðurstöður starfshóps um nýja peningastefnu

Hvítbók um framtíðarskipulag fjármálaeftirlitsins

Frumvarp um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar:

Ég á líka von á frumvarpi, hvort heldur er á vorþingi eða á haustþingi, um breytingar á lögum um Seðlabanka íslands. Forsætisráðherra hefur meðal annars boðað sameiningu Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins.

Jón Gunnarsson er starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.Stöð 2/Bjarni Einarsson.

Umhverfis- og samgöngunefnd

Helstu mál

Samgönguáætlun með tilheyrandi hugmyndum um veggjöld

Frumvarp til nýrra umferðarlaga

Frumvarp umhverfisráðherra um skógrækt 

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og starfandi formaður:

Það er stefnt að því að ljúka afgreiðslu samgönguáætlunar fyrir lok mánaðarins. Veggjöldin eru auðvitað það sem verið er að fjalla um þar og útfærslan á þeim en svo þyrfti að koma nýtt frumvarp samgönguráðherra um þau í febrúar eða mars sem myndi þá grundvallast á niðurstöðu um samgönguáætlunina.

Atvinnuveganefnd

Helstu mál

Lög um fiskeldi – Væntanlegt þegar þing kemur saman

Vandi sauðfjárbænda

Endurskoðun búvörusamninga

Innflutningur á hráu kjöti

Strandveiðar

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður nefndarinnar:

Fiskeldisfrumvarpið hefur tekið breytingum, en ég á von á því að einhverjar deilur verði um málið, þetta er stórt og mikið mál en ég tel það sé búið að reyna að mæta mörgum sjónarmiðum þótt það verði erfitt að gera alla sátta.

Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.Vísir/Vilhelm

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Helstu mál

Skýrslur Ríkisendurskoðunar um Útlendingastofnun og um Fiskistofu

Plastbarkamálið

Stjórnsýsla dómstólanna

Landsdómsmálið

Sendiherrastöður

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um skipun í Landsrétt

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður nefndarinnar:

Dóms er að vænta frá Mannréttindadómstól Evrópu um skipun dómara í Landsrétt og það er ekki ólíklegt að það þurfi eitthvað að ræða hann. Svo eigum við eftir að ná fundi með fjármálaráðherra og utanríkisráðherra og þingmönnunum Gunnari Braga Sveinssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni vegna umæla sem féllu á Klaustri. Það er inni á okkar borði og það er okkar skylda að fjalla um þann þátt, annars værum við ekki að sinna lögbundinni skyldu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×