Körfubolti

Luka Doncic með fleiri atkvæði en bæði Harden og Durant

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic hefur slegið í gegn í NBA í vetur en þetta er hans fyrsta tímabil í deildinni.
Luka Doncic hefur slegið í gegn í NBA í vetur en þetta er hans fyrsta tímabil í deildinni. Getty/Kevork Djansezian
Slóvenski nýliðinn Luka Doncic er einn af þeim sem hafa fengið flest atkvæði í kosningunni á leikmönnum í Stjörnuleik NBA-deildarinnar en kosningin er í fullum gangi.

Luka Doncic hefur fengið fleiri atkvæði en stórstjörnur á borð við Kevin Durant, James Harden og Russell Westbrook.

James Harden kemst ekki einu sinni í fimm manna lið Vesturdeildarinnar því Derrick Rose hjá Minnesota Timberwolves hefur fengið fleiri atkvæði en hann.



Stjörnuleikurinn er þó ekki lengur leikur á milli Vesturstrandarinnar og Austurstrandarinnar. Í staðinn kjóst tveir vinsælustu leikmennirnir í lið.

Eins og staðan er núna þá munu það vera LeBron James og Giannis Antetokounmpo sem kjósa í liðin í ár en í fyrra voru það LeBron og Stephen Curry.

LeBron James er sá eini sem er kominn með yfir milljón atkvæði í kosningunni en stöðuna má sjá hér fyrir neðan.





Atvkæði aðdáenda gilda 50 prósent á móti 25 prósentum hjá öllum leikmönnum deildarinnar og 25 prósentum hjá fjölmiðlamönnum. Á hverju atkvæðaseðli er pláss fyirr tvo bakverði og svo þrjá leikmenn sem spila sem framherji eða miðherji.

Kosningunni lýkur ekki fyrr en 21. janúar næstkomandi þannig að það er nóg eftir. Sjálfur stjörnuleikurinn fer fram í Charlotte í Norður-Karólínu 17. febrúar.

Leikmennirnir sem kæmust í fimm manna liðin samkvæmt fyrstu tölum væru annarsvegar LeBron James, Luka Doncic, Kevin Durant, Stephen Curry og Derrick Rose en hinsvegar Giannis Antetokounmpo, Kawhi Leonard, Joel Embiid, Kyrie Irving og Dwyane Wade.

Það eru ekki allir NBA-spekingar mjög hrifnir af þessum fyrstu tölum og þá sérstaklega hversu fá atkvæði James Harden fær. Það má sjá tvo þeirra fá tölurnar beint í æð hér fyrir neðan.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×