Innlent

Vígahnöttur yfir Íslandi: „Líkt og eldflaugaárás frá Sauðárkróki“

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Loftsteinn séður frá Ungverjalandi í ágúst í fyrra. myndin tengist fréttinni ekki beint.
Loftsteinn séður frá Ungverjalandi í ágúst í fyrra. myndin tengist fréttinni ekki beint. EPA/Peter Komka
Loftsteinn sást yfir Íslandi í gærkvöldi. Steinninn skildi eftir sig bjarta slóð á á leið sinni suður eftir himninum og sprakk. Hann kann að vera úr Kvaðrantíta loftsteinadrífunni sem sást um allan heim í gær.

Eðlisfræðivefurinn greinir frá því að loftsteinninn hafi sést um klukkan tuttugu mínútur í átta í gærkvöldi. Tilkynningar hafa borist um að steinninn hafa sést víða af landinu og að um mikið sjónarspil hafi verið að ræða.



Klippa: Vígahnöttur yfir Íslandi


Einn sem skilur eftir sig ummæli á facebook síðu Eðlisfræðivefsins segist hafa séð steininn á leið sinni frá Akureyri. Hann segist hafa séð miklar eldglæringar og litadýrð líkt og væri verið að gera eldflaugaárás frá Sauðárkróki eins og hann orðar það.

Annar sem staddur var við Rauðavatn segir steininn hafa lýst upp himininn og horfið jafnskjótan. Maður staddur í Önundarfirði segist hafa séð bláan og fjólubláan ljóma á himni sem ferðaðist hratt yfir.

„Þegar þeir verða svona bjartir kallast þeir vígahnettir,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri stjörnufræðivefsins. „Þá á hann að skilja eftir sig smá rák og slíkt. Það er alveg útilokað að svona hnöttur sem lifði í svona skamman tíma hafi komið alla leið niður. Þannig að hann hefur fuðrað upp þarna langt fyrir ofan okkur. Í gær og í nótt var loftsteinadrífa í gangi sem heitir Kvaðrantítar og það gæti vel verið að þetta hafi verið steinn úr henni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×