Viðskipti erlent

Hafa engar áhyggjur af framtíð Apple og telja félagið undirverðlagt

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Þrátt fyrir að Apple hafi selt færri iPhone á síðasta ári en spár gerðu ráð fyrir, einkum vegna minni sölu í Kína, þá jókst sala á öllu öðru eins og fartölvum, spjaldtölvum, heyrnartólum og þjónustu um nítján prósent.

Þá jukust þjónustutekjur vegna iCloud um 28 prósent og námu rúmlega 10 milljörðum dollara bara á síðasta fjórðungi ársins 2018. Hið virta greiningarfyrirtæki Morningstar telur að Apple sé verulega undirverðlagt. 

Apple hefur í mörg ár verið verðmætasta fyrirtæki í heimi en hefur skipst á að deila toppsætinu við Microsoft síðan í lok nóvember. Þess vegna kom afkomuviðvörun frá Apple, sú fyrsta í sextán ár, eins og þruma úr heiðskíru lofti á miðvikudag. Ástæðan eru minni tekjur einkum vegna minni sölu á iPhone í Kína. Apple hafði reiknað með 89-93 milljarða dollara tekjum á síðasta ársfjórðungi 2018 en tekjurnar reyndust 84 milljarðar dollara.

Tim Cook forstjóri Apple rakti stöðu og horfur fyrirtækisins í löngu viðtali við NBC í gærkvöldi. Þar fór hann yfir ástæður minni sölu og nefndi að hægt hefði verið á hagkerfinu í Kína á síðari helmingi ársins 2018 og tollastríð Bandaríkjanna og Kína hafi sett aukinn þrýsting á hagkerfið. Hann nefndi minni veltu og færri heimsóknir í verslanir Apple í Kína og verulegan samdrátt í sölu snjallsíma í nóvember. 

Hlutabréf í Apple lækkuðu á miðvikudag um rúmlega 7 prósent eftir að opnað var fyrir viðskipti á ný eftir afkomuviðvörun. Síðustu daga hefur verið mikil umfjöllun vestanhafs um stöðu og horfur Apple en margir telja að fyrirtækið standi á ákveðnum tímamótum og nú sé þörf fyrir nýja stefnu hjá fyrirtækinu. Bent hefur verið á að Apple hafi ekki sett nógu margar nýjar ferskar vörur á markað frá andláti Steve Jobs árið 2011 fyrir utan Apple Watch. Ör vöxtur Apple var að miklu leyti kominn til vegna þess að fyrirtækið var frumkvöðull og brautryðjandi við að skapa nýja markaði fyrir tónhlöður (iPod), spjaldtölvur (iPad) og snjallsíma (iPhone). 

Þótt Apple hafi sent frá sér afkomuviðvörun er fyrirtækið ógnarsterkt. Ekkert annað fyrirtæki býr yfir jafn góðri lausafjárstöðu en í byrjun febrúar í fyrra átti fyrirtækið á 285 milljarða dollara, jafnvirði 33.600 milljarða króna, í handbæru fé. Þess má geta að landsframleiðsla Íslands var 2.555 milljarðar króna á árinu 2017.  Apple á því þréttánfalda landsframleiðslu Íslands í handbæru fé (cash). 

Fjárhirslur Apple eru svo stórar og djúpar að fyrirtækið gæti keypt Goldman Sachs, einn stærsta fjárfestinarbanka í heimi, efnisveituna Netflix og rafbílaframleiðandann Tesla og greitt fyrir öll fyrirtækin með reiðufé en samt átt drjúgan afgang.

Þrátt fyrir kliðinn í fjölmiðlum vestra eftir afkomuviðvörun hafa margir reynslumiklir greinendur litlar áhyggjur af Apple. Hið virta greiningarfyrirtæki Morningstar bendir á í fréttabréfi til áskrifenda að hjá Apple hafi sala á öllu öðru en iPhone vaxið um 19 prósent ár eftir ár og þjónustutekjur, þá aðallega vegna iCloud og AppStore, hafi verið rúmlega 10 milljarðar dollara á síðasta fjórðungi og vaxið um 28 prósent milli ára. Morningstar heldur verðmati sínu á Apple óbreyttu í 200 dollurum. Verðið stóð í 147 dollurum þegar þessi frétt var skrifuð.


Tengdar fréttir

Hlutabréf í Apple féllu um tíu prósent

Hlutabréf í bandaríska tæknirisanum Apple féllu um nærri tíu prósent í dag, daginn eftir að félagið gaf út afkomuviðvörun vegna verri sölu en reiknað var með á síðasta ársfjórðungi síðasta árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×