Innlent

Fólk hættir við tæknifrjóvgun: „Hið opinbera lítur á þetta sem annars flokks sjúkdóm“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ófrjósemislæknir segir fólk neyðast til að hætta við að fara í tæknifrjóvgun vegna breytinga sem gerðar voru á reglugerð um greiðsluþátttöku við meðferðirnar. Breytingarnar séu slæmar fyrir meirihluta þeirra sem þurfi að fara í meðferð. Hið opinbera virðist ekki hafa skilning á alvarleika málsins.

Fyrir breytinguna sem tók gildi nú um áramótin var engin greiðsluþátttaka af hendi ríkisins í fyrsta skipti tæknifrjóvgunar en fimmtíu prósent þátttaka ef framkvæma þurfti aðgerðina í annað, þriðja og fjórða sinn. Eftir breytingu tekur ríkið þátt í kostnaði sem nemur fimm prósent í fyrsta skipti, þrjátíu prósent ef farið er í annað skipti en ríkið tekur engan þátt ef farið er í þriðja eða fjórða skipti.

Snorri Einarsson, yfirlæknir á Livio, segir að þessi nýja niðurgreiðsla við fyrstu meðferð, sem nemur 24.000 krónur af tæplega 500 þúsund króna meðferð, sé ekki að fara skipta lykilmáli í stóra samhenginu. Þó hún sé vissulega betri en engin, bitni hún illa á þeim sem þurfa að fara í margar meðferðir.

„Því miður þá er eðli þessara meðferða þannig að það er kannski ein af þremur sem heppnast í hvert skipti þannig það er meirihluti þeirra sem koma til okkar sem þurfa að halda áfram í meðferðum og á endanum fara í margar meðferðir áður en hið langþráða barn fæðist,“ segir Snorri.

Nú þarf fólk sem er að fara í meðferð í annað sinn að borga um hundrað þúsund krónum meira en áður. „Og fólk sem er að koma í þriðja skipti, fólk sem er orðið þreytt og búið að leggja í mikinn kostað og fólk sem er búið að vera undir miklu álagi, það fær engan styrk alls þrátt fyrir að meðferðirnar sem það á fram undan séu enn að skila góðum árangri,“ segir Snorri. 

Það sé sárt að þetta fólki neyðist til að hætta við að fara í meðferð vegna aukins kostnaðar sem skyndilega fellur á það. „Því miður þá er fólk að afboða sig í meðferðir sem var búið að gera ráð fyrir að fá niðurgreiðslur. Fólk sem, ef það hefði búið á Norðurlöndunum, hefði fengið fyrst, aðra og þriðju meðferð fyrir brotabrot af því sem þarf að borga á Íslandi. Vegna þess að hið opinbera lítur á þetta sem annars flokks sjúkdóm, öfugt við hin Norðurlöndin þar sem þetta er samþykktur sjúkdómur og skilningur er á alvarleika málsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×