Körfubolti

Ráku þjálfarann sinn klukkutíma eftir stórsigur á Los Angeles Lakers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Thibodeau.
Tom Thibodeau. Getty/Maddie Meyer
Minnesota Timberwolves vann 22 stiga stórsigur á Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en þessi flotti sigur bjargaði ekki starfi Tom Thibodeau.





Andrew Wiggins skoraði 25 af 28 stigum sínum í fyrri hálfleik þegar Minnesota Timberwolves vann 108-86 sigur á Los Angeles Lakers en Lakers-liðið lék enn á ný án LeBron James sem er meiddur.

Þetta var síðasti leikur Timberwolves liðsins undir stjórn þjálfarans Tom Thibodeau sem var rekinn klukkutíma eftir leikinn. Thibodeau var bæði þjálfari og forseti félagsins.

Tímasetnining brottrekstursins var frekar furðuleg en það breytir ekki því að mikið hefur gengið á í herbúðum Minnesota Timberwolves á þessari leiktíð. Félagið missti meðal annars stjörnuleikmanninn Jimmy Butler sem þvingaði fram leikmannaskipti.





Karl-Anthony Towns átti fínan leik fyrir Minnesota en hann var með 28 stig, 18 fráköst og 4 varin skot og þá var Jeff Teague með 15 stig og 11 stoðsendingar.  Lance Stephenson var atkvæðamestur hjá Lakers með 14 stig en liðið hefur aðeins unnið 1 af 6 leikjum síðan að LeBron James meiddist á nára.





Norman Powell var með 23 stig þegar Toronto Raptors endaði sex leikja sigurgöngu Indiana Pacers með 121-105 sigri en Raptors liðið lék án Kawhi Leonard í leiknum. Serge Ibaka var með 18 stig og Pascal Siakam bætti við 12 stigum og 10 fráköstum.





Bradley Beal skoraði 25 stig fyrir Washington Wizards í 116-98 sigri á Oklahoma City Thunder en tólfta þrenna Russell Westbrook á tímabilinu (22 stig, 15 fráköst, 13 stoðsendingar) dugði ekki Thunder-liðinu.





Kemba Walker skoraði 18 af 29 stigum sínum á síðustu fimm mínútunum þegar Charlotte Hornets vann 119-113 sigur á Phoenix Suns en þetta var sjötta tap Phoenix liðsins í röð.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Oklahoma City Thunder - Washington Wizards 98-116

Toronto Raptors - Indiana Pacers 121-105

Phoenix Suns - Charlotte Hornets 113-119

Atlanta Hawks - Miami Heat    106-82    

Chicago Bulls - Brooklyn Nets    100-117    

Los Angeles Clippers - Orlando Magic    106-96    

Minnesota Timberwolves - Los Angeles Lakers    108-86

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×