Viðskipti innlent

Toys R' Us opið út janúar hið minnsta

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Toys R' Us rekur meðal annars verslun á Smáratorgi.
Toys R' Us rekur meðal annars verslun á Smáratorgi. Vísir/Vilhelm
Verslanir Toys R' Us á Íslandi verða opnar út janúarmánuð hið minnsta. Að öðru leyti liggur framtíð þeirra ekki fyrir. Eins og Vísir greindi frá fór hið danska móðurfélag verslananna, Top Toy, í þrot fyrir áramót en félagið rak hundruð Toys R' Us-verslana á Norðurlöndunum.

Sigurður Þórir Jónasson, verslunarstjóri Toys R' Us á Smáratorgi, segir í samtali við Morgunblaðið að hann sé ekki viss um hvað gerist í febrúar. Hann bíði enn fregna að utan en að starfólk Toys R' Us, sem rekur þrjár verslanir hér á landi, muni halda sínu striki þangað til upplýsingar berast um annað.

Sjá einnig: Móðurfélag Toys R' Us á Íslandi gjaldþrota

Hann bætir við að verslanirnar þrjár, á Smáratorgi, í Kringlunni og á Akureyri séu ekki farnar á hausinn. Blaðamaður Vísis heimsótti eina þessara verslana um helgina og mátti sjá að fjölmargar hillur stóðu þar tómar.

Að sögn Sigurðar er alla jafna lítið um leikfangasendingar til landsins í janúar. Þar að auki hafa viðskiptavinir Toys R' Us á Íslandi verið hvattir til að nýta gjafabréf sín í verslununum, „meðan það er hægt“ - sem samkvæmt nýjustu fregnum er út janúar hið minnsta.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×