Innlent

„Það eru vondir menn sem nýta sér þennan hóp“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Dæmi eru um að konur með mikinn geð- og fíknivanda séu misnotaðar af karlmönnum eftir að hafa verið útskrifaðar á götuna vegna skorts á framhaldsúrræðum. Að undanförnu hefur verið fjallað um úrræðaleysi þegar kemur að búsetu fyrir fólk með fíknivanda og geðsjúkdóma eða svokallaðan tvígreindan vanda. Vandinn virðist sérstaklega mikill hjá konum en þær hafa fests inn á geðdeild árum saman vegna skorts á framhaldsúrræðum.

„Frá því ég kem inn á deildina árið 2013 hefur undantekningarlaust verið ein kona með alvarlegan geðsjúkdóm og fíknivanda föst á deildinni,“ segir Margrét Manda Jónsdóttir, deildarstjóri á sérhæfðri endurhæfingardeild geðsviðs Landspítalans.

Í dag sé ástandið sérstaklega slæmt en á deildinni er kona sem hefur verið þar föst í rúmlega tvö og hálft ár. Manda segir að stefnan sé að útskrifa konurnar ekki fyrr en viðunandi búsetuúrræði hafi fengist.

„Þegar staðan er orðin sú að viðkomandi er komin með versnun á geðrofseinkennum, versnun á sjúkdómi út af lengd innlagnar og er bara orðin stofnaniseruð eða vonlaus jafnvel, að þá höfum við útskrifað þær vitandi það að viðkomandi hafi ekki að útskrifast í viðunandi úrræði,“ segir Manda. Það sé hræðileg tilfinning að útskrifa þessar konur á götuna enda séu konur með alvarlegan geð- og fíknisjúkdóm mjög berskjaldaður hópur.

„Þær verða fórnarlömb mansals. Það eru vondir menn sem nýta sér þennan hóp og við vitum raunveruleg dæmi þess að það er verið að fara illa með þær,“ segir Manda.

Nú sé verið að berjast fyrir því að koma einni konunni, sem var útskrifuð af deildinni í fyrra en fékk ekkert viðunandi úrræði, til bjargar, en sú býr við sérstaklega slæmar aðstæður.

Þá eru fleiri tvígreindar konur í þeirri stöðu í dag. „Ég get bara talað fyrir mína deild en í fljótu bragði vel ég um fimm sem búa við mjög slæmar aðstæður. Þær búa flestar við mikið ofbeldi og misnotkun. Það eru karlar sem nýta sér þeirra berskjöldun. Þetta er mjög erfitt og tekur mikið á að vita hver staðan er og finna ekki neitt bakland í öðrum kerfum,“ segir Manda og bætir við að það verði að bregðast strax við til að bjarga þessum konum.

„Það er mikil starfsemi hér þar sem er stórt teymi sem reynir að finna út úr þessu. En við gerum þetta ekki hér. Við getum ekki alltaf verið að leggja fólk inná spítalann. Þannig sveitarfélögin þurfa að koma inn í þetta og einhver önnur kerfi. Það þarf bara að huga þetta upp á nýtt þetta er allavega ekki að fúnkera eins og þetta er núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×