Viðskipti innlent

Neytendasamtökunum borist fjöldi fyrirspurna vegna Indlandsflugsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Indlandsflug Wow Air var skammlíft.
Indlandsflug Wow Air var skammlíft. Vísir/Vilhelm
Neytendasamtökunum hefur borist nokkur fjöldi fyrirspurna vegna aflýsingar á Indlandsflugi Wow Air. Þetta kemur fram í frétt á vef samtakanna en neytendum er bent á reglugerð um réttindi flugfarþega.

Í fréttinni segir að efni fyrirspurnanna varði réttarstöðu þeirra sem áttu pantað flug til Indlands eftir að Wow Air lét af ferðum sínum þangað. Farþegar hafi kvartað undan því að þeim hafi eingöngu verið boðin endurgreiðsla á farmiðum, ýmist í formi peninga eða gjafabréfs.

„Þeir einstaklingar sem leitað hafa til samtakanna hafa þá velt fyrir sér hvort að aðrir möguleikar ættu ekki að standa þeim til boða.“

Neytendasamtökin benda á að reglugerð um réttindi flugfarþega veiti farþegum rétt á þremur valkostum þegar flugi er aflýst.

„Í fyrsta lagi að fá endurgreiðslu á ferðinni, í öðru lagi að fá flugleið breytt og komast til lokaákvörðunarstaðar eins fljótt og unnt er, og í þriðja lagi að breyta flugleið og komast þannig til lokaákvörðunarstaðar síðar meir við fyrsta hentugleika fyrir farþegann.“

Farþegar ættu því að geta valið um það hvort þeir þiggi endurgreiðslu á flugmiðanum eða óski eftir því að flugfélagið útvegi þeim nýtt flug á lokaáfangastað.

Wow Air tilkynnti í maí síðastliðinn að félagið hæfi beint áætlunarflug til Indlands í desember. Flugið var slegið af skömmu síðar vegna mikilla hagræðinga innan félagsins.


Tengdar fréttir

Fólki í fæðingarorlofi sagt upp og VR vill svör

Nokkrir fyrrverandi starfsmenn WOW air hafa leitað til VR til að kanna réttarstöðu sína vegna uppsagna. Fólki í fæðingarorlofi sagt upp án þess að fyrir lægi skriflegur rökstuðningur eins og lög gera ráð fyrir. VR rukkar WOW um svör.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×