Handbolti

Toppslagur í fyrsta leik eftir 52 daga hlé á deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lovísa Thompson var markahæst hjá Valsliðinu í fyrri leiknum á móti ÍBV.
Lovísa Thompson var markahæst hjá Valsliðinu í fyrri leiknum á móti ÍBV. Vísir/Daníel Þór
Tvö efstu lið Olís deildar kvenna í handbolta mætast á Hlíðarenda í kvöld þegar deildin fer aftur af stað eftir tæplega tveggja mánaða hlé vegna Evrópumótsins, jólanna og áramótanna.

Topplið Vals tekur þá á móti ÍBV í Origo höllinni á Hlíðarenda og hefst leikurinn klukkan 18.30. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Leikurinn verður sá fyrsti í kvennadeildinni síðan 18. nóvember eða í heila 52 daga.

Þetta er toppslagur á milli liða sem geta varla verið jafnari ef marka má hvernig hlutirnir spiluðust fyrir áramót.

Valur og ÍBV náðu bæði í fimmtán stig í fyrstu tíu leikjunum og gerðu líka 18-18 jafntefli í fyrri leiknum sínum í Eyjum. Bæði lið eru með sjö sigra og tvö töp en markatala Valsliðsins er þó mun betri.

Eyjakonur fóru inn í fríið á fimm leikja sigurgöngu sem er lengsta lifandi sigurgangan í deildinni. ÍBV vann alla deildarleiki sína frá tapi á móti Haukum 15. október síðastliðinn.

Valskonur töpuðu þremur leikjum í röð í deild (1) og Evrópukeppni (2) um miðjan nóvember en fóru inn í fríið eftir frábæran fjórtán marka útisigur á Haukum 17. nóvember.

Valsliðið vann fjóra leiki í röð í deildinni eftir jafntefli í Eyjum í október. Einu töp Valskvenna í deildinni í vetur hafa komið í tveimur leikjum liðsins á móti Íslandsmeisturum Fram. Tapleikir ÍBV voru aftur á móti gegn Haukum og HK.

Tveir aðrir leikir fara fram í Olís deild kvenna í kvöld. Klukkan 19.30 mætast Haukar og Fram í Schenkerhöllinni á Ásvöllum og á sama tíma tekur KA/Þór á móti Selfossi í KA-húsinu á Akureyri. Umferðin klárast síðan með leik HK og Stjörnunnar á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×