Umfjöllun og viðtöl: Valur - ÍBV 23-16 | Valur rúllaði yfir ÍBV

Gabríel Sighvatsson skrifar
Lovísa Thompson, leikmaður Vals.
Lovísa Thompson, leikmaður Vals. vísir/daníel þór
Valur tók á móti ÍBV í toppslag í Olís-deild kvenna í Origo-höllinni í kvöld. Þetta var fyrsti leikur deildarinnar eftir langt jóla- og vetrarfrí. Fyrirfram var búist við hörkuslag tveggja bestu liðanna um þessar mundir.

Annað kom á daginn. Strax í fyrri hálfleik settu Valsstúlkur tóninn og skoruðu 13 mörk á móti 5 þegar tæpar 20 mínútur voru komnar á klukkuna.

ÍBV átti í erfiðleikum með að skora og náðu ekki að stoppa Valskonur í vörninni. Valur slakaði á bensíngjöfinni þegar þarna var komið og ÍBV náði þá góðum 6-1 kafla sem kom þeim í kjörstöðu á að komast aftur í leikinn þegar seinni hálfleikur var nýbyrjaður.

Þá kom aftur slæmur kafli hjá ÍBV þar sem þær skoruðu ekki mark í meira en 10 mínútur. Markvarsla og skotnýting ennþá vandamál.

Íris Björk Símonardóttir varði á fullu fyrir Val og var munurinn milli liðanna í dag. Þegar ÍBV hitti yfirhöfuð á markið þá rataði það yfirleitt í hendur Írisar í markinu.

Að lokum höfðu Valskonur nokkuð öruggan 23-16 sigur og sitja núna verðskuldað einar á toppnum.

Af hverju vann Valur?

Valur var með betri markmann í dag. Þegar sóknin slakaði á í lok fyrri og byrjun síðari hálfleiks náði ÍBV að komast aftur inn í leikinn en eftir það rönkuðu þær við sér og vörnin fór að taka til sín.

ÍBV skoraði þá ekki mar í dálangan tíma á meðan sóknin hjá Val var á ágætis skriði. Þetta var ekki besta frammistaða Vals í kvöld en vörnin var svo ógnarsterk að þær þurftu ekki mikið meira.

Hvað gekk illa?

Eyjakonur áttu erfitt með að halda aftur af Vali í fyrri hálfleik og fengu á sig 13 mörk á tæpum 20 mínútum. Þegar þær náðu ekki að svara í sömu mynt varð það fljótt vandamál.

Það fór næstum hálfur leikurinn í að bíða eftir marki hjá ÍBV. Tvisvar áttu þær næstum 15 mínútna kafla þar sem þær skoruðu ekki mark og 16 mörk í 60 mínútna leik vinnur sjaldnast leiki fyrir þig.

Hverjir stóðu upp úr?

Íris Björk Símonardóttir, markmaður Vals, var frábær í dag og skildi liðin að. Hún var með u.þ.b. 50% vörslu í kvöld. Sandra Erlingsdóttir var markahæst hjá liðinu með 6 mörk.

Arna Sif Pálsdóttir endaði með 5 mörk hjá ÍBV og þrátt fyrir hæga byrjun hjá Guðnýju Jenný varði hún 11 bolta og var með 34% vörslu.

Hvað gerist næst?

Liðin sitja enn í 1. og 2. sæti deildarinnar en nú skilja tvö stig liðin að. ÍBV tekur á móti Haukum næst á meðan Valur sækir botnlið Selfoss heim.

Ágúst: ÍBV er með frábært lið

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, horfði á lið sitt vinna ÍBV með 23 mörkum gegn 16 í kvöld.

„Frammistaðan og baráttan var algjörlega til fyrirmyndar. Varnarleikurinn var góður og markvarslan. Við náum á köflum að keyra hraðaupphlaupin mjög vel, betur en oft áður í vetur. Við vorum full staðar í sóknarleiknum og að skjóta frekar illa, við vorum aðeins ryðgaðar þar. Þetta var týpískur leikur eftir langt hlé, en að vinna ÍBV með 7 mörkum við erum mjög ánægð með það.“ sagði Ágúst.

Valur tók forskot snemma í leiknum og í stöðunni 13-5 virtist þetta ætla að verða hægðarleikur fyrir Val.

„ÍBV er auðvitað með frábært lið og við þurftum að hafa mikið af þessum sigri. Grunnurinn að þessu var góður varnarleikur og markvarsla og svo skoruðum við mikið úr hraðaupphlaupum og það var gott.“

ÍBV minnkaði svo muninn fyrir hálfleik og enn frekar í seinni hálfleik þegar Valur átti slæman kafla.

„Mér fannst við hafa getað verið með stærri mun í hálfleik. Finnst við vera klaufar að vera bara 5 mörkum yfir, svo er langur kafli í seinni, við skorum ekki í 17-18 mínútur held ég. Stelpurnar sýndu síðan mikinn karakter og vinnusemi og umbunin góð tvö stig.“

Á endanum var markvarslan hjá Val frábær og skipti það sköpum í leiknum.

„Markvarsla í handbolta skiptir gríðarlega miklu máli. Í dag var Íris (Björk Símonardóttir) með gott framlag og Chanty (Chantelle Pagel) líka þegar hún kom inn á en þær eru með landsliðsmarkmann í (Guðnýju) Jenný, þannig að þær eru ekkert á flæðiskeri staddar hvað varðar það.“

Sandra: Allt að smella hjá okkur

Sandra Erlingsdóttir, leikmaður Vals, var að spila gegn sínum gömlu liðsfélögum í kvöld og hafði sigur.

„Við byrjum strax virkilega vel, við náðum alveg að leysa 5-1 vörnina hjá þeim, svo breyttu þær niður í 6-0 vörn og þá fórum við að skjóta svolítið mikið í kontakt og náum ekki að spila boltanum nógu vel.

Þær minnka þetta niður í 3 mörk held ég en maður var alltaf róleg. Svo fór þetta að ganga í seinni hálfleik og tókum þetta örugglega.“

Valur byrjaði leikinn af krafti og var liðið komið með gott forskot strax í fyrri hálfleik sem nýttist þegar liðið missti dampinn.

„Já, sérstaklega þegar við misstum þær niður í lok fyrri hálfleiks þá fór þetta niður í 3 en við vorum búin að vinna upp forystuna.“

Eftir langa pásu er gott að vera farin að spila handbolta aftur.

„Við erum búnar að æfa vel í pásunni, þetta er búin að vera endalaus pása. Við byrjum strax, það er „fight“ í okkur, sóknarleikurinn er að koma og það er einhvern veginn allt að smella hjá okkur núna.“

Hrafnhildur: Afleitt að skora bara sextán mörk

Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV, var ekki sátt með leikinn í kvöld.

„Það er afleitt að skora bara 16 mörk í leik, ég veit ekki hvenær það gerðist síðast hjá okkur, við erum lið sem skorar yfirleitt mjög mikið af mörkum og erum yfirleitt í kringum 30 mörk eða meira. 16 mörk í einum leik, það var bara það sem fór með okkur í dag.“

„Mörg dauðafæri sem fara í súginn, Íris er náttúrulega frábær í markinu í dag, ég veit ekki hvað hún var með í markvörslu, 60 prósent eða eitthvað. Hún var auðvitað stórkostleg í dag. Við áttum líka bara mjög erfitt á köflum að komast í gegn. Svo bara enginn þannig séð heit sóknarlega í okkar liði.“

ÍBV átti slæma kafla í leiknum og þær skoruðu ekki mark drjúgan hluta af leiknum.

„Það eru færi sem við náum ekki að nýta. Þær komust fyrst í 13-5 þá skorum við og minnkum í 13-11. Þar dettum við gjörsamlega niður og náum varla skoti á markið þannig að þær taka alveg þessa kafla líka, okkar voru bara lengri.“

Eins og oft áður í vetur lentu Eyjastúlkur undir í leiknum og nokkuð mörgum mörkum undir.

„Það er aldrei gott en við erum búin að lenda í þessu í 90% leikja í vetur. Við byrjum alltaf illa og lendum alltaf í þessu að lenda 3-4 mörkum undir strax í byrjun en samt höfum við unnið megnið af leikjunum. Við erum vanar að koma til baka og klára þetta og vorum nálægt því í stöðunni 13-11 þegar þær fá gefins víti, finnst mér, og voru ekki búnar að skora í mjög langan tíma sem var pínu „breaker fyrir þær.“

Annars fannst Hrafnhildur hennar lið leggja allt í sölurnar og gat ekki kvartað undan spilamennskunni eða baráttunni, þrátt fyrir neikvæð úrslit.

„Ég get ekki kvartað undan því, mér fannst þær leggja sig allar fram og þær voru að berjast í vörninni allan tímann, þetta var ekki svona „enginn mætti til leiks“, eins og maður segir oft. Það var barátta í þessu og það voru allir að gefa sig 100 prósent, þetta bara gekk ekki á hinum endanum og það er bara upp á hestinn. Það eru Haukar eftir viku sem er líka mikilvægur leikur fyrir okkur, við þurfum að klára hann.“ sagði Hrafnhildur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira