Skoðun

Að sleppa við veiðigjöld

Bolli Héðinsson skrifar
Ég hitti fyrir skemmstu kunningja minn, útgerðarmann, og spurði hann hvernig útgerðin gengi. „Aldrei betur“ svaraði hann „ég sé ekki fram á að þurfa að greiða eina einustu krónu í veiðigjöld.“ Ég hváði en hann skýrði þetta út fyrir mér mér. „Þetta verður einfalt. Gamli Range Roverinn minn er orðinn þriggja ára og auðvitað mun útgerðin sjá mér fyrir nýjum bíl. Þeir fást á 14 milljónir en það er ekki eðlilegt að útgerðarmaður þurfi að sætta sig við ódýrustu gerð. Svo er alltaf eitthvað sem ég get tínt til í kostnað, utanlandsferðir og viðhald á húsinu og sumarhúsinu svo þegar upp er staðið þá verður ekkert eftir til að borga í veiðigjöld.

Vinstri grænir voru svo assgoti herskáir fyrir síðustu kosningar og við vorum aðeins smeykir, en það var ekkert að marka, þú manst strax í vor vildu þeir allt fyrir okkur gera. En þá kom eitthvað hagfræðingastóð úr háskólanum sem skaut þeim skelk í bringu en það var síst verra að bíða.

Ef þetta hefði orðið eitthvað vandamál með veiðigjöldin þá eigum við alltaf tromp uppi í erminni og „látum út landsbyggðarspilið“ eins og við útgerðarmenn köllum það. Þá finnum við einhvern útgerðarmann sem er með allt niður um sig og segjum „hvað, ætlið þið að leggja af plássið?“ Og það er segin saga enginn framsóknarflokkanna stenst svoleiðis og skiptir þá engu öll hin plássin sem við höfum lagt í eyði þegar við höfum selt hver öðrum kvótann, það skiptir framsóknarflokkana engu.“

„En hvað segja endurskoðendurnir, ert þú ekki með eitt af þessum fyrirtækjum með fínu útlendu nöfnin sem endurskoðar fyrir þig?“ spurði ég. „Jú blessaður, þeir segja ekki múkk og telja þetta alltsaman útgerðarkostnað. Þú manst hvað þeir voru þægir við bankana fyrir hrun. Þeir sögðu að allt væri í himnalagi í bönkunum alveg fram á síðasta dag. Þeir eru ekkert að spá í þetta og gera bara eins og ég segi.“




Skoðun

Sjá meira


×