Lífið

Björn Bragi verður með Mið-Íslandi á nýrri sýningu

Birgir Olgeirsson skrifar
Uppistandarinn Björn Bragi Arnarsson.
Uppistandarinn Björn Bragi Arnarsson. Vísir/Vilhelm
Uppistandshópurinn Mið-Ísland frumsýnir nýja sýningu í Þjóðleikhúskjallaranum næstkomandi föstudag. Búið er að setja níu sýningar í sölu en hópurinn samanstendur af þekktustu uppistöndurum landsins, þeim Ara Eldjárn, Bergi Ebba Benediktssyni, Jóhanni Alfreð Kristinssyni, Halldóri Halldórssyni og Birni Braga Arnarssyni.

Ekki hefur farið mikið fyrir Birna Braga síðastliðna mánuði eftir að myndband fór í dreifingu þar sem hann sást káfa á unglingsstúlku á skyndibitastað að nóttu til á Akureyri í október.

Björn Bragi baðst afsökunar á framferði sínu og stúlkan sendi fjölmiðlum síðar meir tilkynningu þar sem hún sagði snertinguna hafa valdið sér óþægindum en hún tæki afsökunarbeiðni Björns Braga gilda.

Málið olli miklu uppnámi í samfélaginu og margir sem gagnrýndu Björn Braga harðlega vegna atviksins. Hann sagði sig sjálfur frá starfi sínu sem kynni spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, og hætti Íslandsbanki við að fá hann á skemmtun sem og knattspyrnufélagið Valur.

Sem fyrr segir er Björn Bragi hluti af uppistandshópnum Mið-Íslandi en þeirri spurningu var varpað fram á Facebook-síðu hópsins hvort að Björn Bragi yrði með í nýju sýningunni. Svar barst frá þeim sem sér um Facebook-síðu Mið-Íslands þar sem kemur fram að hann verði með.

Samkvæmt Mið-Íslandi verður hann erlendis frumsýningarhelgina og missir því af henni en kemur svo til landsins og verður á sýningunum sem eftir eru.

Ekki náðist í forsvarsmenn Mið-Íslands við vinnslu þessarar fréttar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×