Innlent

Færri börn en fleiri eldri borgarar á Seltjarnarnesi frá aldamótum

Sveinn Arnarsson skrifar
Ásgerður Halldórsdóttir.
Ásgerður Halldórsdóttir.
Íbúaþróun á Seltjarnarnesi á þessari öld er frábrugðin þróun nágrannasveitarfélaganna. Á meðan fjölgar í öllum sveitarfélögunum á svæðinu stendur Seltjarnarnes í stað hvað varðar íbúaþróun á tímabilinu.

Frá aldamótum fækkaði íbúum á Seltjarnarnesi til ársins 2013 þegar fjöldi íbúa náði lágmarki en hefur nú risið aftur og náð fyrra horfi.

Hins vegar, þegar skoðaðar eru breytingar á samsetningu íbúanna á Seltjarnarnesi kemur í ljós á þessu tímabili að börnum fækkar nokkuð sem og íbúum á svokölluðum barneignaraldri eða á aldrinum 25 til 45 ára. Að sama skapi fjölgar ellilífeyrisþegum nokkuð á tímabilinu.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, segir skýringu þess að ekki hafi fjölgað í sveitarfélaginu á tímabilinu einfaldlega vera að land til nýbygginga í sveitarfélaginu sé að mestu upp urið á meðan önnur sveitarfélög eigi enn land til uppbyggingar. Af þeim sökum hafi hin sveitarfélögin stækkað en Seltjarnarnes ekki.

„Það hefur ekki verið mikið byggt á Seltjarnarnesi því við erum að miklu leyti búin með það land sem við getum byggt upp á,“ segir Ásgerður.

„Hins vegar erum við nú að sjá fram á að geta byggt upp á nýjum reit sem hefur verið skilgreint iðnaðarsvæði. Þar mun byggjast upp á næstu árum. Við munum því sjá Seltjarnarnes stækka upp í um 5.000 manns.“

Ásgerður segir að íbúar sveitarfélagsins séu ólíklegir til að flytjast burtu úr sveitarfélaginu sem sýni að þeir séu sáttir við þá þjónustu sem er veitt og að almenn sátt með búsetu skipti miklu máli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×