Erlent

Þóttist vera rússneskur mafíósi til að snúa tölvusérfræðingi El Chapo

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Svo virðist sem að tölvusérfræðingur mexíkóska eiturlyfjabarónsins Joaquín Guzmán Loera, betur þekktur sem El Chapo, hafi gegnt lykilhlutverki í árangursríkri aðgerð bandarísku alríkislögreglunnar FBI við að handtaka El Chapo og brjóta á bak aftur umfangsmikla glæpastarfsemi hans. Tölvusérfræðingurinn hannaði sérstakt kerfi sem gerði El Chapo og meðlimum í gengi hans kleyft að eiga í öruggum samskiptum sín á milli, þangað til tölvusérfræðingurinn sneri baki við „þann stutta“.

Guzman var einn alræmdasti fíkniefnasmyglari heims áður en hann var handsamaður. Glæpagengi hans smyglaði kókaíni, heróíni og amfetamíni frá Mexíkó til Bandaríkjanna. Hafði hann fengið kólumbíska tölvusérfræðinginn Cristian Rodriguez til þess að hanna fyrir sig sérstakt samskiptakerfi sem væri svo öruggt að ekki væri hægt að hlera samtöl þeirra sem töluðu saman í gegnum kerfið

Laug að El Chapo að um venjulega uppfærslu væri að ræða

FBI hafði veður af kerfinu og árið 2010 hófst umfangsmikil leyniaðgerð sem miðaði að því að fá Rodriguez til þess að snúast gegn El Chapo. Útsendari FBI mælti sér mót við Rodriguez og þóttist vera rússneskur mafíósi. Sagðist hann hafa áhuga á sambærilegu kerfi og Rodriguez hannaði fyrir El Chapo.

Sjá einnig:Lygileg atburðarrás leiddi til handtöku El Chapo

Á aðeins einu ári tókst FBI að snúa Rodriguez og öðlast aðgang að kerfinu. Með því gat FBI hlustað á yfir 200 símtöl þar sem El Chapo sjálfur ræðddi á opinskáan hátt um allt frá skipulagi glæpasamtakanna til hvaða embættismenn í mexíkóska stjórnkerfinu væru að þiggja mútur frá genginu.

Áður en hann var framseldur til Bandaríkjanna slapp Guzman úr Altiplano-fangelsinu í Mexíkó með því að smeygja sér í gegnum holu í sturtuklefa fangelsisins.Vísir/EPA
Rodriguez veitti FBI lyklana að dulkóðun kerfisins eftir að hann flutti vefþjóna þess frá Kanada til Hollands og laug að El Chapo og fleirum að flutningurinn væri aðeins venjubundin uppfærsla.

Upplýsingar um þetta komu fram í réttarhöldunum yfir El Chapo á dögunum en þau hafa staðið yfir frá því í nóvember á síðasta ári. Í frétt New York Times segir að sönnunargögnin sem FBI hafi tekist að veiða upp úr símtölunum sem útsendarar þess gátu hlustað á í gegnum kerfið séu þau sönnunargögn sem koma muni El Chapo verst í málinu.

„Þið eigið vin í mér“

Alls náði FBI í yfir 1.500 símtöl í gegnum kerfið með aðstoð hollenskra lögregluyfirvalda en í einu þeirra má meðal annars heyra El Chapo ræða við yfirmann í alríkislögreglu Mexíkó sem hafði þegið mútur frá samtökunum.

„Þið eigið vin í mér,“ mátti heyra yfirmanninn segja við El Chapo í gegnum símann. Þá má í öðru símtali heyra El Chapo semja um verð á sex tonna sendingu af kókaíni frá Kólombíu. Samstarf FBI og Rodriguez gerði það að verkum að FBI gat hlustað á símtölin sem fóru í gegnum kerfið örfáum dögum eftir að þau áttu sér stað.

Rodriguez starfaði með samtökum El Chapo í tvö ár eftir að hann hóf að aðstoða FBI en svo virðist sem að El Chapo og félaga hafi grunað að hann hafi svikið þá, en eftir að Rodriguez hætti störfum fyrir samtökin fyrirskipaði El Chapo að finna ætti Rodriguez, þar sem hann grunaði hann um að aðstoða FBI.

El Chapo þykir háll sem áll en áður en hann var framseldur til Bandaríkjanna, slapp hann tvisvar úr fangelsi í Mexíkó. Í fyrra skiptið nýtti hann sér þvottakörfu, en í seinna skiptið slapp hann í gegnum jarðgöng úr klefa sínum.


Tengdar fréttir

Lygileg atburðarás leiddi til handtöku El Chapo

Bandaríski leikarinn Sean Penn er sagður hafa leitt yfirvöld að Joaquin Guzman, en hann tók leynilegt viðtal við hann stuttu eftir að hann slapp úr mexíkósku fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×