Erlent

Náðu að nema dularfullar útvarpsbylgjur í geimnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Flestir telja að útvarpsbylgjurnar megi rekja til kröftugs atburðar í annarri stjörnuþoku.
Flestir telja að útvarpsbylgjurnar megi rekja til kröftugs atburðar í annarri stjörnuþoku.
Kanadískir vísindamenn náðu að nema útvarpsbylgjur síðastliðið sumar sem bárust handan vetrarbrautar okkar. Vísindamennirnir hafa birt niðurstöðu sína í vísindatímaritinu Nature en til að nema þessar útvarpsbylgjur notuðust þeir við risastórt apparat sem hefur fengið nafnið CHIME sem er staðsett í Okanagan dal í Kanada.

Útvarpsbylgjurnar voru í 1,5 milljarða ljósára fjarlægð þegar vísindamennirnir fundu þær en uppruni þeirra er enn á huldu. Eru þó flestir sammála um að uppruna þeirra megi rekja til kröftugs atburðar, til að mynda öflugrar sprengingar í annarri stjörnuþoku.

Shriharsh Tendulkar, stjarneðlisfræðingur við McGill-háskólann og einn af höfundum greinarinnar sem birtist í Nature, sagði í samtali við fjölmiðla að bylgjurnar hafi verið afar kröftugar en eins og áður segir, uppruni þeirra óljós.

Þeir sem fjallað hafa um þessa rannsókn benda á að það sé fremur algengt að útvarpsbylgjur myndist í geimnum og að sólin sendi stöðugt slíkar bylgjur um sólkerfi okkar. Önnur fyrirbæri geri það einnig í alheiminum, þar á meðal svarthol.

Sú kenning sem hefur hlotið mestan meðbyr varðandi þessa rannsókn kanadísku vísindamannanna er að útvarpsbylgjurnar hafi myndast vegna sprengingar nifteindastjörnu. Er um að ræða stjörnu sem talin er hafa fallið saman með þyngdarhruni þannig að næstum allt efnið hefur þjappast saman í nifteindir.

Margir hafa þó verið snöggir til og bent á að mögulega séu þessar útvarpsbylgjur að berast frá geimverum. Tendulkar segir við fjölmiðla að hann hafi skilning fyrir slíkum tilgátum en til séu mun einfaldari útskýringar á þessu fyrirbæri en að það berist frá framandi samfélagi vera í geimnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×