Innlent

22 þúsund sörur fleyta fimleikahópnum til Bandaríkjanna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hluti hópsins við baksturinn, í húsakynnum Dunkin' Donuts, í október.
Hluti hópsins við baksturinn, í húsakynnum Dunkin' Donuts, í október. Ella Holt
„Krúttlega fjáröflunarhugmyndin“ fyrir meistarahóp Gróttu í fimleikum gekk vonum framar, að sögn eins aðstandenda hópsins.

Greint var frá því um miðjan október að fimleikastelpurnar, sem eru á aldrinum 13 til 18 ára, væru byrjaðar að baka sörur af miklum móð og ætluðu sér svo að selja þær á 100 krónur stykkið.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Að sögn Ellu Holt, móðir einnar stúlku í hópnum, bakaði hópurinn alls rúmlega 22 þúsund sörur sem seldust allar. „Og gott betur, við erum löngu hættar að taka pantanir,“ segir Ella og bætir við að nú sér verið að ganga frá síðustu afhendingunum, en sörurnar voru afhentar í gjafaumbúðum.

Sjá einnig: Krúttleg fjáröflun varð að tíu þúsund sörum

Einfaldur reikningur sýnir að óhætt er að áætla að með því að selja 22 þúsund sörur á 100 krónur stykkið hafi hópnum tekist að safna rúmum 2,2 milljónum króna með uppátækinu. Stelpurnar komist því í keppnisferða til Bandaríkjanna eins og stefnt var að og mun hópurinn fljúga til Tennessee þann 14. febrúar næstkomandi.

Ella segir stúlkurnar þakklátar þeim styrktaraðilum sem gerðu baksturinn mögulegan; Mjólkursamsölunni, Nathan og Olsen, ísbúðin Skúbb auk Freyju. Þá hafi hópurinn fengið afnot af eldhúsi Dunkin’ Donuts við baksturinn og segir Ella að þetta hafi verið „ótrúlega lærdómsríkt ferli“ sem hafi gefist vel. Þá vilji hópurinn koma á framfæri þökkum til íbúa Vesturbæjar Reykjavíkur og Seltjarnarness, sem Ella segir að hafa veitt stúlkunum frábærar móttökur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×