Innlent

Kostnaður vegna snjómoksturs vanáætlaður undanfarin ár

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Kostnaður vegna snjómoksturs og vetrarþjónustu hefur verið vanáætlaður í Reykjavíkurborg undanfarin ár. Síðan 2014 hefur kostnaður að meðaltali farið ríflega 280 milljónum fram úr því sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Borgarstjóri segir að finna þurfi rétta milliveginn.

Þegar veður er annars vegar getur eðli málsins samkvæmt verið erfitt að gera áætlanir. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hefur kostnaður vegna vetrarþjónustu verið á bilinu 624 milljónir til tæplega 752 milljónir á árunum 2014 til 2017. Það sem af er þessa árs hefur kostnaður verið ríflega 641 milljón en sú tala á eftir að breytast enda árið ekki liðið og á eftir að taka tillit til ýmissa þátta. Meðalkostnaður á ári hefur því numið um 663,4 milljónum en í fjárhagsáætlun borgarinnar er aðeins gert ráð fyrir 380 milljónum króna.

„Síðustu vetur hafa margir verið með miklu meiri snjókomu en í meðalári þannig að við höfum verið að vanáætla sum ár,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Það er erfitt að spá fyrir um þetta eins og kannski veður yfir höfuð. En þó er það þannig að hluti af snjómoksturskostnaðinum er fastur. Það er að segja hann breytist ekki jafnvel þó að enginn snjór komi.“ Vísar hann til ýmiss fasts kostnaðar, til dæmis vegna viðverugjalds verktaka og kostnaðar við eftirlitsbúnað, leigu saltgeymsla og viðhalds og reksturs ýmissa tækja og búnaðar.





Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.Vísir/Vilhelm
„Við skoðum þetta í tengslum við hverja einustu fjárhagsáætlun en við þurfum eiginlega að finna einhvern milliveg. Maður vill hvorki vera að verja of miklu fé í að láta í raun kyrrstæðar vélar bíða eftir snjónum og borga fyrir það mikið fé án þess að það þurfi á því að halda, né heldur að vera vanbúin til þess að taka virkilega á því þegar að skaflarnir fara að hrannast upp,“ segir Dagur.

Þótt lítið hafi snjóað síðan í haust hefur þó nokkuð verið um útköll vegna hálkueyðingar á götum og göngustígum. „Það er erfitt að hitta nákvæmlega á þetta en við reynum að gera okkar besta í hverri einustu áætlun,“ segir Dagur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×